„Umferðaröngþveitið á höfuðborgarsvæðinu er að verða óbærilegt fyrir íbúa þessa svæðis. Snemma á morgnana og síðdegis er umferðin svo gríðarleg að fólk kemst lítið áfram. Þessi staða mála er ákaflega þreytandi fyrir þá, sem á annað borð eru á ferðinni á þessum tímum. Það liggur í augum uppi að samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins er ekki hannað fyrir þessa miklu umferð og sjálfsagt hefur fjölgun bíla orðið langt umfram það, sem reiknað var með. Öngþveitið er eftir sem áður staðreynd.“
Nú gætu lesendur haldið að þessi orð hafi verið sett á blað í gær. Svo er nú ekki, heldur birtust þau í forystugrein Morgunblaðsins 1. nóvember 2006. Fyrir 13 árum. Já, fyrir 13 árum! Grein sinni lýkur höfundur á þessa leið:
„Þetta er mesti vandi íbúa höfuðborgarsvæðisins.“
Þetta hefði einhverntíma verið kallað neyðarástand. En er svarið við því meiri steypa, stál, malbik og álögur?
Orsakir og afleiðingar
Við Íslendingar erum sífellt að glíma við afleiðingar af öllum sköpuðum hlutum. En alltof oft dettur engum heilvita manni í hug að takast á við orsök vandamálanna. Skáldið okkar sagði sem svo, að í hvert sinn sem komið er að kjarna máls hlaupa Íslendingar út og suður. Hver kannast ekki við það?
Okkur spekingum hér vestra rennur til rifja að fylgjast með þessum ógöngum í Sæluborginni, eins og Bjössi okkar á Ósi kallar Reykjavíkina og er hann sennilega höfundur orðsins. Sæluborgin er höfuðborg allra Íslendinga.
Ein geggjuð hugmynd að vestan
Og er nú komið að erindinu:
Á Íslandi eru í dag rúmlega 300 þúsund bifreiðar og önnur ökutæki á skrá. Sem sagt uppundir eitt stk. á mann. Okkur finnst, að í stað þess að byggja endalaus samgöngumannvirki ætti að snarfækka ökutækjum í umferðinni strax. Þá væri tekið á raunverulegri orsök vandans. Einkum á þetta við um Sæluborgina okkar. En á landsbyggðinni þurfum við fyrst og síðast að komast upp úr moldarvegunum og huga sérstaklega að þungaflutningum á landi með tilliti til sjóflutninga.
Lýsingarorðið geggjaður er mjög vinsælt um þessar mundir. Og er rétt að spekingarnir að vestan slái nú fram rétt einni geggjaðri hugmyndinni til umhugsunar fyrir landsmenn og ráðamenn þeirra. Við höfum nokkra reynslu af slíkri hugmyndavinnu og er alveg ókeypis hjá okkur!
Menn fái greitt fyrir minni akstur í stað steinsteypu
Við leggjum til að ríkissjóður borgi mönnum fyrir að minnka akstur einkabíla eða aka þeim alls ekki. Með nútíma rafrænni tækni ætti að vera hægt að framkvæma þetta auðveldlega. Það er nú fylgst með öðru eins þessa dagana. Hver bíll fengi upphafskvóta um áramót, t. d. 10 þús. km miðað við meðalakstur einhver ár aftur í tímann. Síðan keyrði hann aðeins 5 þús. km á árinu. Ríkiskassinn myndi þá greiða fyrir 5 þús km sem ekki voru eknir. Til dæmis 50 kr. pr. kílómetra. Ef reiknað er með að 100 þúsund bílar minnki akstur um 5 þús. km á ári, sem er ekki ólíkleg tala, þýddi það 25 milljarða úr ríkissjóði. Miðað við 10 þús. km gera það 50 milljarða. Þeir peningar myndu fara beint út í hagkerfið í stað þess að festast í steypu, stáli og malbiki og hvaðeina því tilheyrandi. Og er ykkur kunnugt um það, lesendur góðir, að umferðarslysin eru talin kosta á þessu ári 50-60 milljarða? Þetta eru að sjálfsögðu frumhugmyndir til umræðu. Á þeim geta verið ýmsar útfærslur með skynsemina og frjálst samkomulag að leiðarljósi. Það er til mikils að vinna!
Þjóðhagslegur sparnaður yrði væntanlega ómetanlegur!
Þjóðhagslegur sparnaður yrði væntanlega gífurlegur af slíkum aðgerðum. Almenningur fengi mikla peninga í hendurnar í staðinn fyrir hrikalega kostnaðarsöm umferðarmannvirki sem áður segir. Margt mundi breytast til batnaðar ef að líkum lætur. Lífskjarasamningurinn geirnegldur og öllum liði miklu betur í Sæluborginni og líka á landsbyggðinni.
Þörfin fyrir ný samgöngumannvirki myndi snarminnka. Kannski upp á nokkur hundruð milljarða króna til lengri tíma litið. En viðhaldi núverandi vega mætti ekki gleyma og byggja vegi upp úr moldinni í sveitinni. Umferðarslysum fækkaði væntanlega verulega. Viðhald og afskriftir bifreiða myndu minnka og hver veit nema tryggingar þeirra einnig. Og var einhver að tala um bílakjallara uppá tugi milljarða. Skotheld neðanjarðarbyrgi?
Svo má hugsa sér eftirtaldar hliðarráðstafanir sem kallaðar eru: Sæluborgin mundi fjölga strætisvögnum og hafa ókeypis í strætó fyrir alla. Fjölga ferðum um minnsta kosti helming eða eins og til þarf. Borg og ríki í sameiningu hefðu samvinnu um að gera leigubíla eins ódýran og hagkvæman kost og hægt er svo almenningur sjái sér hag í að nota þá. Og svo auðvitað allir út að hjóla eins og þar stendur! Fella niður öll gjöld af reiðhjólum.
En mesti ávinningurinn af þessari geggjuðu hugmynd er væntanlega rúsínan í pylsuendanum. Hver hún er geta menn rætt sín á milli.
Hallgrímur Sveinsson Guðmundur Ingvarsson Bjarni G. Einarsson