Ef þú giftist, ef þú bara giftist…

Ég fagna áhuga Sigurðar Inga Jóhannssonar á því að vilja styrkja sveitarstjórnarstigið en er eins og margir aðrir hugsi yfir þeim lögþvinguðu aðgerðum sem hann ætlar að beita í þeim tilgangi.

Rifjast þá upp atvik þegar ég fyrir nokkrum árum var ungur beitningamaður og einn af sjóurum hreppsins leit inn til þess að ræða málin. Því ágæta spjalli lauk á því að við gerðum með okkur samkomulag um að ég mundi fá dóttur hans og þótti okkur þetta það skynsamlegasta í stöðunni þar sem við vorum bæði enn laus og liðug. Þessi ráðahagur þótti okkur hagstæður, við gætum sameinast um eina íbúð sem væri hagkvæmt ekki bara fyrir okkur heldur sveitarfélagið þar sem íbúðaskortur hefur ríkt, við mundum stefna í átt að hagstæðri fjölskyldueiningu – kjarnafjölskyldunni – og þar með skapa samfélaginu öllu heilmikið hagræði. Ég og „tilvonandi“ tengdafaðir minn vorum hæstánægðir með þessa lendingu, er nokkuð sem mælir því í mót að skipuleggja hjónabönd með þessum hætti?

Eina fyrirstaðan var auðvitað sú að dóttirin ólofaða, sem var hvergi nærri þegar þetta samkomulag var gert milli mín og karls föður hennar, hafði heilmikið við þetta að athuga. Lögþvinguð hjónabönd hafa nefnilega ekki tíðkast hér á landi um alllangt skeið og við höfum vanist því að hafa ýmislegt um líf okkar að segja, stjórna því hverjum við verjum ævinni með, hvers konar búsetuskilyrði við veljum okkur og svo mætti áfram telja. Auðvitað er það miklu meira en hagkvæmni sem ræður því með hverjum maður kýs að deila lífinu.

Mín upplifun af umræðunni um eflingu sveitarstjórnarstigsins með fækkun sveitarfélaga og fjárstuðningi er að aðrir telji sig vita hvernig best er að haga málum án þess þó að þekkja til ólíkra stöðu sveitarfélaganna. Fulltrúar margra minni sveitarfélaga hafa bent á þann ótta við að stærri eining mái út einkenni og sérkenni svæða, sogi kraft af svæðinu þegar ljóst liggur fyrir að stærri sveitarfélögin taki ákvörðun um að sinna þjónustunni úr stærri kjörnum. Ákvarðanir verði jafnvel teknar af þeim sem þekkja minna til jaðarsvæðanna, hafa litla persónulega tengingu og áhuga á þeim svæðum enda er erfitt fyrir lítil svæði að tryggja fulltrúa sínum sæti í stærri sveitarfélögum sem ná landfræðilega yfir stórt svæði. Ef raunverulegur vilji er fyrir hendi til þess að efla sveitarstjórnarstigið hér á landi ættu ráðamenn fremur að tryggja öllum sveitarfélögum, ekki síst þeim fámennu, aðstoð við að veita sem besta þjónustu við íbúa svæðisins með róttækum aðgerðum svo allt landið haldist í byggð.  Ég sé ekki fyrir mér að það verði tryggt með framlögðum aðgerðum Sigurðar Inga samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og hans lögþvinguðu „hjónaböndum“.

Finnur Ólafsson,

oddviti Kaldrananeshrepps.

 

DEILA