Úrskurðarnefnd um upplýsinga- og auðlindamál vísaði í gær frá kæru Landssambands veiðifélaga þar sem kærð var sú ákvörðun Skipulagsstofnunar að taka við frummatsskýrslu Fjarðalax og Arctic Sea Farm þar sem farið var yfir aðra valkosti en sjókvíaeldi í Arnarfirði og Tálknafirði.
Úrskurðarnefndin hafði í fyrra fellt úr gildi leyfi fyrir laxeldinu þar sem ekki var gerð grein fyrir öðrum valkostum í matsskýrslunni á sínum tíma. Var fyrirtækjunum veitt bráðabirgðaleyfi á meðan bætt væri úr þessum ágöllum. Féllst Skipulagsstofnun á að fyrirtækin fengju að leggja fram viðbót við þegar gerða matsskýrslu. Það kærði Landssamband veiðifélaga og vildi að umhverfismatið færi fram að nýju frá grunni og bar fyrir sig þau rök að brotið væri gegn rétti almennings með þessu.
Skipulagsstofnun hélt því fram hins vegar að málið hefði þegar farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum og megintilgangurinn væri laxeldi í sjó og almenningur hefði þar fengið lögboðinn rétt til að koma að athugasemdum. Með viðbótarskýrslunni væri bætt við öðrum kostum og unnt væri fyrir almenning að koma að sínum sjónarmiðum varðandi þá.
Leyfishafinn í málinu, Arctic Sea Farm og Fjarðalax settu fram þau sjónarmið að ákvörðun Skipulagsstofnunar væri um málsmeðferð, svokölluð formmeðferð, og lyki ekki meðferð málsins á stjórnsýslustigi. Því væri ekki um kæranlega ákvörðun að ræða, þar sem forsenda þess að unnt er að kæra til úrskurðarnefndarinnar er að málinu sé lokið á stjórnsýslustigi. Var krafist þess að málinu yrði vísað frá.
Úrskurðarnefndin tók undir þessi sjónarmið og vísað málinu frá.