Vestri upp í 1. deild

Knattspyrnulið Vestra vann sér sæti í fyrstu deildinni á næsta leiktímabili með stórsigri á Tindastól frá Sauðárkróki í dag á Torfnesvelli.

Vestri sigraði 7:0 eftir að hafa leitt 4:0 í hálfleik. Hammed Obafemi Lawal  skoraði eftir aðeins þriggja mínutna leik.  Isaac Freitas Da Silva  skoraði annað mark á 20. mín., gestirnir skoruðu sjálfsmark á 32. mín og  Zoran Plazonic bætti við því fjórða á 34. mínútu.

Í síðari hálfleik skoruðu  Þórður Gunnar Hafþórsson, Joshua Ryan Signey  og Daníel Agnar Ásgeirsson.

Það lá vel á Bjarna Jóhannssyni, þjálfara liðsins þegar Bæjarins besta heyrði í honum. „Þetta var þrælöruggt allan tímann og við skoruðum strax í byrjun leiks.“ sagði Bjarni.

Ekki er búið að semja við hann um þjálfun næsta sumar en Bjarni sagðist eiga von á fundum í næstu viku. Ofar var honum í huga framtíð vallarins og sagðist vonast til að það skýrðist fljótlega svo óvissa um vallastræði myndi ekki trufla næstu leiktíð og undirbúning að henni.

DEILA