Bændaglíma Golfklúbbs Ísafjarðar

Frá Tungudal. Mynd : Gunnar Þórðarson.

Uppskeruhátíð Golfklúbbs Ísafjarðar, Bændaglíman, var haldin á Tungudalsvelli laugardaginn 14. september. Í þessu lokamóti golfvertíðarinnar er skipt í tvö lið, annað undir stjórn formanns klúbbsins og hitt undir forystu formanns mótanefndar. Spilaðar voru níu holur með forgjöf, og sameiginleg niðurstaða liða réð úrslitum. Það hafði rignt eldi og brennisteini fram eftir degi á laugardaginn, en stytti upp um fjögur leytið þegar ræst var út á teiga. Það er skemmst frá því að segja að lið formanns klúbbsins sigraði með naumum mun.

Golfsumarið í Tungudal verður lengi í minnum haft sökum einmuna tíðar og mikillar aðsóknar á völlinn. Golfvertíðin hefur verið gjöful klúbbnum, hvort heldur er litið til mótshalds, teiggjalda eða veitingasölu. Ferðamennska í sumar hefur verið óvenjugóð og hefur Tungudalsvöllur notið góðs af því, og mikið um að ferðamenn hafi komið við og leikið hring á vellinum. Klúbburinn er með golfsett til leigu á sanngjörnu verði og hefur mikið verið sótt í þau í sumar.

En Tungudalsvöllur er opinn áfram og oftar en ekki má leika golf fram eftir októbermánuði. Með haustinu flyst starfsemin niður í Sundagolf þar sem klúbburinn rekur golfhermi og púttflöt, sem er opin áhugasömum golfurum. Á haustin sækja margir golfarar á suðrænar slóðir til að njóta íþróttarinnar við betra loftslag en hér norður undir Dumbshafi, aðallega til Spánar eða Portúgals. Teygja aðeins úr golfvertíðinni og njóta þess að spila í stuttbuxum og ermalausum bol. Að þessu sinni fara klúbbfélagar vel undirbúnir í slíka ferð eftir einstaka golfvertíð í sumar á Tungudalsvelli.

DEILA