Ástarvikan í Bolungavík stendur yfir þessa dagana. Hún er kynnt sem kærleiksrík menningarhátíð.
Í gær voru sagðar Ástarsögur allra tíma í hinu nýja Bókakaffi Bolungarvíkur og það verður aftur á dagskrá í dag auk þess sem kl 20 verður kærleiksstund í Hólskirkju.
Á morgun verða ástarsögurnar áfram á dagskrá í bókakaffinu og annað kvöld kl 20 hitnar í kolunum þegar Ragga Eiríks flytur fyrirlestur sem heitir : Kynheilbrigði, lyklapartý og losti. Það verður skemmtilegur og fræðandi fyrirlestur þar sem farið verður um víðan völl, forvitnilegt og fullorðins í félagsheimilinu segir í kynningu.
Við elskum Ísfirðinga – ókeypis ís
Eitt af þema ástarvikunar í Bolungarvík er undir yfirskriftinni ‚Við elskum Ísfirðinga. „Í þessu felst engin hroki eða yfirlæti, heldur er þessu ætlað til að árétta vinarsamband okkar við okkar frábæru nágranna“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri. „Einhverjir hafa kannski orðið var við umræðuna um lögþvingaða sameiningu eins og hugmyndir eru uppi meðal ráðamanna. Þrátt fyrir að Bolungarvík hafi brugðist afar neikvætt við þessum fréttum um þvíngaða sameiningu, þá viljum við koma á framfæri mikilvægum skilaboðum til Ísfirðinga: Þótt við viljum ekki sameinast ykkur, þá erum við ekki hættir að elska ykkur. Þess vegna fáið þið ókeypis ís í Musterinu alla vikuna á meðan birgðir endast.“