Segir Vegagerðina sýna dónaskap

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax. Mynd: mbl.is / Helgi Bjarnason.

Ákvörðun Vegagerðarinnar að láta Breiðafjarðarferjuna Baldur leysa Herjólf af lýsir dónaskap í garð íbúa og fyrirtækja á sunnaverðum Vestfjörðum. Þetta segir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax. Herjólf­ur fer í reglu­bundna slipp­töku í maí og á meðan siglir Baldur milli lands og Eyja. Bald­ur mun sigla sam­kvæmt áætl­un á Breiðafirði 30. apríl og hefji sigl­ing­ar frá Vest­manna­eyj­um 2. maí og er stefnt að því að Bald­ur verði aft­ur kom­inn aft­ur í áætl­un á Breiðafirði sunnu­dag­inn 21. Maí.

„Meðan vegirnir eru eins og þeir eru, hálsarnir snarbrattir og oft eitt drullusvað, þá hefur þó verið pínutrygging í þessari leið. Við höfum þurft að senda okkar afurðir með Baldri þegar hálsarnir eru hvað verstir. Svo má heldur ekki gleym að það er fólk sem treystir sér ekki til að keyra þessa leið og hefur því nýtt sér Baldur,“ segir Víkingur.

Mikil reiði er á sunnanverðum Vestfjörðum með þá ákvörðun samgönguráðherra að skera niður framkvæmdafé til Vegagerðar í Gufudalssveit, vegagerð sem á að leysa af vegina yfir Ódrjúgsháls og Hjallaháls. „Ofan í þessa umræðu kemur svo þessi ákvörðun að kippa ferjunni í burtu á svæði sem býr við vegakerfi sem er löngu úrelt.“

Víkingur segir að Vegagerðin hafi ekki verið í sambandi við fólk á svæðinu varðandi þessa ákvörðun. „Við lesum þetta bara í blöðunum,“ segir Víkingur.

smari@bb.is

DEILA