Aukþing Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldið var í gær, samþykkti tillögu stjórnar sem mælir með því að Alþingi samþykki þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019-2023. Í samþykkt þingsins segir: „Í tillögunni er gert ráð fyrir veglegum fjárhagslegum stuðningi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við sameiningar sveitarfélaga og því er mikilvægt að ríkissjóður veiti sérstök fjárframlög til sjóðsins til að fjármagna þann stuðning.“
Gert er ráð fyrir því í tillögum ríkisstjórnarinnar að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga leggi fram allt að 15 milljörðum króna á næstu 15 árum. Byggðastofnun og nú aukaþingið telja mikilvægt að fjármagnið komi úr ríkissjóði svo ekki þurfi að skerða önnur framlög Jöfnunarsjóðsins sem svo myndi bitna á sveitarfélögunum.
Tillaga ríkisstjórnarinnar um sameiningu sveitarfélaga kveður á um að lágmarksíbúafjöldi í sveitarfélagi skui verða 250 frá næstu sveitarstjórnarkosningum 2022 og 1000 frá 2026.
Í greinargerð með tillögunni, sem er í kynningu á samráðsgátt stjórnvalda, segir að breyta þurfi sveitarstjórnarlögum til þess að ná þessu fram, þar sem ákvæði um lágmarksfjölda íbúa hafi verið fellt út úr sveitarstjórnarlögum árið 2011. En ákvæði um 50 íbúa lámarksíbúafjölda hafði verið í sveitarstjórnarlögum frá 1961. Þá segir í greinargerðinni: „Þrátt fyrir þau sjónarmið að það sé andstætt stjórnarskrárbundnum sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga að þvinga fram sameiningar án þess að bera tillögu þar að lútandi undir íbúa, sem m.a. komu fram í samráðsferlinu, telur starfshópurinn að fordæmið sýni að það sé viðurkennd leið að lögfesta lágmarksíbúafjölda. Það þarf hins vegar að ákveða með lögum frá Alþingi, sbr. 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar.“
Starfshópurinn, sem þarna er vitnað er til samdi fyrir samgönguráðherra tillöguna um sameiningu sveitarfélaganna. Starfshópurinn var skipaður tveimur fulltrúum ráðherra, þeim Valgarði Hilmarssyni, fyrrverandi sveitarstjóra Blönduósbæjar, sem var formaður starfshópsins, og Sóleyju Björk Stefánsdóttur, bæjarfulltrúa í Akureyrarbæ, og tveimur fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, þeim Aldísi Hafsteinsdóttur, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóra í Hveragerði, og Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra í Reykjavík.