Í kvöld kl. 19:30 heldur Sinfóníuhljómsveit Íslands tónleika í Íþróttahúsinu á Ísafirði. Tónleikarnir eru síðasti liðurinn í 70 ára afmælishátíð Tónlistarskóla Ísafjarðar og Tónlistarfélags Ísafjarðar.
Það er því vel við hæfi að 4 af 5 einleikurum og einsöngvurum sem fram koma á tvennum tónleikum Sinfóníunnar að þessu sinni eru gamlir nemendur Tónlistarskóla Ísafjarðar, það eru þau Herdís Anna Jónasardóttir, sópran, Mikolaj Ólafur Frach, píanóleikari, Pétur Ernir Svavarsson, píanóleikari og tenor og Þórunn Arna Kristjánsdóttir, söng- og leikkona.
Á tónleikunum í kvöld kemur einnig fram Hátíðarkór Tónlistarskóla Ísafjarðar undir stjórn Beötu Joó.
Stjórnandi í kvöld er Daníel Bjarnason og aðgangur er ókeypis.