Sofnaði undir stýri

Um nýliðna helgi var einum gesti vínveitingastaðar á Ísafirði vísað út þar sem hann hafði ekki aldur til að dvelja þar. Gerðar voru athugasemdir við rekstraraðila að slíkur gestur væri inni á veitingastaðnum enda er það hlutverk dyravarða að tryggja að svo sé ekki. Þetta kemur fram á vef Lögreglunnar á Vestfjörðum þar sem fjallað er um helstu verkefni liðinnar viku, en þar má einnig sjá að sex ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Flestir þessara ökumanna voru stöðvaðir í Strandasýslu og á Djúpvegi. Sá sem hraðast ók mældist á 121 km hraða, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km.

Tilkynningar bárust um tvö umferðaróhöpp í liðinni viku. Annað þeirra varð í Þorskafirði um miðjan dag þann 23. nóvember en þá virðist ökumaður hafa misst stjórn á bifreiðinni sem rann út af veginum og valt. Hálka var á veginum þegar atvikið varð. Ökumann, sem var einn í bifreiðinni, sakaði ekki. Hitt óhappið varð í Álftafirði síðdegis þann 27. nóvember. En þá var fólksbifreið ekið utan í vegrið sem er við veginn. Bifreiðin rann hvorki út af veginum né valt við áreksturinn en skemmdist töluvert. Hvorki ökumann eða farþega sakaði. Svo virðist sem ástæða óhappsins sé sú að ökumaður hafi sofnað við stýrið.

annska@bb.is

DEILA