Á fjölskyldu- og skólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Ísafirði verður flutt úrval tónlistar úr leikritum, leikgerðum og kvikmyndum sem byggjast á ævintýrum Astridar Lindgren. Tónlist úr Línu langsokk, Emil í Kattholti, Bróður mínum Ljónshjarta og Á Saltkráku hljómar á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar í einstökum útsetningum Jóhanns G. Jóhannssonar. Gáskafull tónlistin með grípandi laglínum undirstrikar vel kenjar og óknytti sögupersónanna en einnig er að finna hrífandi og hugljúfa tónlist sem fangar vináttu og væntumþykju betur en nokkur orð.
Undanfarnar tvær vikur hafa barnakórar á Ísafirði, Flateyri og Ísafirði æft af kappi til þess að geta tekið þátt í þessum tónleikum með sem mestum sóma.
Þar sem starfsdagar eru í flestum skólum á föstudag, daginn sem tónleikarnir eru, þufa foreldrar að sjá til þess að börnin mæti á þessa einstöku tónleika.
Söngvararnir og sögumennirnir Pétur Ernir og Þórunn Arna bregða sér í hlutverk ýmissa sögupersóna ásamt Sinfóníuhljómsveitinni og barnakórum úr heimabyggð. Líf og fjör mun einkenna þessa tónleika þar sem uppeldissjónarmið fullorðinna eru teygð og toguð og hugmyndir æskunnar um lífið og tilveruna fá að njóta sín til fulls.
Tónleikarnir eru á föstudaginn kl. 10-11 í íþróttahúsinu á Torfnesi. Aðgangur er ókeypis á tónleikana og allir velkomnir.