Í tilefni Evrópskra minjadaga, og í samvinnu við Minjastofnun og Minjasafn Egils Ólafssonar, var leiðsögn um Kollsvík laugardaginn 31. ágúst 2019. Valdimar Össurarson frá Láganúpi leiddi gönguna og sagði frá staðháttum og menningarminjum.
Valdimar sagði að gangan hefði farið fram í ákaflega fallegu veðri og verið ágætlega mætt.
Leiðsögnin hófst við nýtt skilti þar sem komið er niður í Kollsvík, við kotbýlið Tröð sem þar er fagurlega innrammað af steinhlöðnum túngarði. Gengið var niðri í Kollsvíkurver, þar sem sjá má miklar verminjar frá útgerð sem þar stóð í blóma fyrir einni öld. Þaðan sést vel upp að bæjarstæðinu í Kollsvík, þar sem rifja má upp sögu Kolls landnámsmanns; heimsókn Guðmundar biskups góða; sögu taflmanns úr rostungstönn; varnarmannvirki gegn sjóræningjum; mannskætt snjóflóð; sagnir af monsjör Einari í Kollsvík sem átti í höggi við galdramenn og e.t.v. fleira.
Valdimar sagðist vera með þá kenning að landnámsmennirnir Kollur og Örlygur hafi byggt fyrstu kirkju landsins einmitt í Kollsvík.
Því næst var haldið að Láganúpi, og þar stoppað við fræðsluskilti. Þaðan var gengið niður að býlinu Grundum og áfram niður að sjó; að Grundabökkum þar sem um margar aldir stóð Láganúpsver; ein stærsta verstöð sunnanverðra Vestfjarða. Margt hefur verið á huldu um hana, en mikið strandrof afhjúpaði fyrir fáum árum þykk lög mannvistarleifa á löngu svæði. Sagt frá sjóslysum á þessum slóðum. Gengið verður út með svonefndum Görðum, en það er gríðarmikill steinhlaðinn veggur með Bökkunum, um það bil 350 metra langur; nokkurskonar „Kínamúr“ svæðisins. Valdimar hefur unnið að viðgerð á Görðunum í samstarfi við Minjastofnun.
Þaðan var gengið upp yfir Brunnsbrekku, framhjá steinhlaðinni fjárrétt og að Hesthúsinu á Hólum, en Valdimar vann að viðgerð þess í samvinnu við Minjastofnun. Valdimar segir að Það muni vera elsta útihús landsins sem staðið hefur undir þaki og gegnt hlutverki allt frá bygginu, um árið 1650.
Þar var staldrað við, notið útsýnisins, spáð í byggðina í Kollsvík og þjóðleiðir fyrri tíma. Sagt frá sólarkrossinum á Láganúpi; hólnum Fornmanni; íbúðarhúsi sem fór á flakk; hleðslumanninum Guðbjarti Guðbjartssyni; hellumálun Sigríðar á Láganúpi og fleiru.