Fjöldi starfsmanna sem eru á íslenskum vinnumarkaði á vegum erlendra þjónustufyrirtækja og starfsmannaleigna hefur margfaldast á milli ára. Þetta kemur fram í skýrslu Vinnumálastofnunar um ástandið á vinnumarkaði. Í seinasta mánuði voru 40 erlend þjónustufyrirtæki starfandi hér á landi en þau voru níu talsins í sama mánuði í fyrra. Alls voru 411 starfsmenn á vegum þessara fyrirtækja í febrúar, nálega tvöfalt fleiri en í sama mánuði í fyrra.
Þá voru starfsmenn starfsmannaleigna, innlendra sem erlendra, samtals 974 í seinasta mánuði á vegum 26 starfsmannaleigna á vinnumarkaðinum og hafði þeim fjölgað úr 178 á einu ári. Yfir 20.000 erlendir ríkisborgarar voru að jafnaði á íslenskum vinnumarkaði á seinasta ári.