Auðvitað fannst Dönum og þá ekki síður Grænlendingum mikið til um þá frétt að valdamesti maður heims kæmi brátt í heimsókn í boði hennar hátignar Margrétar Þórhildar drottningar. Undirbúningur hófst af fullum krafti með tilheyrandi kostnaði, því það kostar enga smáaura að gæta öryggis mikilvægra manna í opinberri heimsókn og undirbúa dagskrá með þeim. Aðallega átti að ræða við leiðtogann málefni norðurslóða sem augu heimsins beinast að. Grænlendingar og ekki síst formaður landssjtórnar Grænlands, Kim Kielsen, fagnaði tækifærinu að ræða þau mál við Bandaríkjaforseta.
Þegar nær dró bryddaði Bandaríkjaforseti á nýju máli sem að hans sögn yrði þó ekki efsta mál á dagskrá, smávegis fasteignaviðskipti sem hann ætlaði að eiga við Dani meðal annars til að létta af þeim þungri byrði sem kostaði þá 700 miljón dali árlega. Þetta aukamál á dagskránni var að kaupa af þeim stærstu eyju heims.
Þar sem sala á löndum og þjóðum hefur ekki átt sér stað síðan á nítjándu öld voru menn ekki með á hreinu hvort forsetinn væri að skemmta gestgjöfunum með mögnuðum brandara eða hvort einhver meining væri að baki. En svörin létu ekki á sér standa. Danir áttu ekki Grænland og það var ekki til sölu. Svar Kim Kielsen, formanns landstjórnar Grænlands kórónaði allt saman. Hann kom með „gagntilboð“. Grænlendingar væru til í að kaupa Bandaríkin, ekki síst af sögulegum ástæðum. Leifur Eiríksson hafði fundið Ameríku og faðir hans Eiríkur rauði bjó á Grænlandi. Kim bætti um betur. Þó að verðið væri ekki ákveðið yrði það tiltölulega ódýrt því þjóðarskuldir Bandaríkjanna væru miklar og verðið myndi enn lækka ef Donald Trump fylgdi með í kaupunum!!
En nú var nóg komið að gamansemi. Minna væri meira en nóg til að reita ameríska örninn til reiði. Danmörk væri stórkostlegt land en ferðinni þangað var aflýst því forsætisráðherrann, Mette Fredriksen, vildi ekki einu sinni ræða „aukamálið á dagskrá“ stórkostleg fasteignaviðskipti sem áttu að létta byrði af litlu Danmörku.
Menn ættu að hætta að verða undrandi á að þessi valdamaður segi eitt í dag en annað á morgun. En stóra spurningin bíður þar til í nóvember 2020. Ætla bandarískir kjósendur að endurnýja umboð manns sem á langa gjaldþrotasögu að baki, er undir rannsókn vegna meintra stjórnarskrárbrota, hefur sýnt fjölmörg einkenni kynþáttafordóma, segir upp alþjóðasamningum sem ætlað er að tryggja frið milli þjóða, dekrar við einræðisherra á milli þess sem hann hótar þjóðum þeirra gjöreyðingu, efnir til tollastríðs við Evrópu og Asíu, grefur undan umbótum í heilbrigðiskerfi landsins og síðast, en ekki síst, afneitar kenningum vísindamanna um loftlagsvá og dregur þjóð sína út úr samstarfi þjóða til að verjast henni í þeim tilgangi að endurnýja mengandi iðnað og jarðefnavinnlu í Bandaríkjunum.
Því fer víðs fjarri að höfundi þessa pistils sé illa við það fólk sem byggir Bandaríkin. Ég á þar góða vini og í fjölmörgum heimsóknum til þessa stórkostlega lands hef ég aldrei mætt öðru en vinsemd og gestrisni. Það er hins vegar skoðun mín að þetta ágæta fólk eigi betra skilið en óhæfa leiðtoga sem draga niður álit þeirra í augum heimsins.
Ólafur Bjarni Halldórsson
(upphaflega birt sem færsla á facebook)