Innanríkisráðuneytið hefur skoðað að opna NA/SV flugbraut á Keflavíkurflugvelli sem er í sömu stefnu og svokölluð neyðarbraut á Reykjavíkurflugvelli. Miðað við þá forsendu að hún yrði eingöngu nýtt sem varabraut fyrir innanlandsflug er kostnaður við opnun hennar áætlaður um 240 milljónir. Sérfræðingur á vegum ráðuneytisins skoðar nú hlutverk Reykjavíkurflugvallar með tilliti til öryggishlutverks hans vegna náttúruvár og annarra ófyrirséðra atburða. Gert er ráð fyrir að hann skili skýrslu í maí.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari Jóns Gunnarssonar, innanríkisráðherra, við fyrirspurn Einars Brynjólfssonar, þingmanns Pírata, og er greint fá á vef RÚV.
Þar segir enn fremur að öryggishlutverki flugvallarins í Vatnsmýri vegna náttúruvár og annarra ófyrirséðra atburða sem ógnað geti samfélaginu hafi ekki fengið jafn mikla umfjöllun og aðrir þættir eins og sjúkraflug og almenningssamgöngur.
Í svarinu kemur jafnframt fram að Samgöngustofa hafi ekki endanlega afgreitt lokun neyðarbrautarinnar. Hún eigi eftir að taka afstöðu til ýmissa ráðstafana sem ISAVIA hafi tilkynnt að nauðsynlegar væru vegna lokunarinnar. Meðal annars þurfi að auka viðnám og bæta nýtingu brauta í hálku, hliðarvindi og við önnur óhagstæð veðurskilyrði.