Ferðaþjónustufyrirtækið Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar hefur verið auglýst til sölu. Fyrirtækið sem hjónin Hafsteinn Ingólfsson og Guðrún Kristjana Kristjánsdóttir stofnuðu fyrir þremur áratugum sinnir farþegaflutningum um Ísafjarðardjúp og norður á Hornstrandir. Fyrirtækið á þrjá farþegabáta, Ingólf 30 farþega, Blika 38 farþega og Guðrúnu sem tekur 48 farþega. Þá á fyrirtækið þjónustuhús við Sundahöfn á Ísafirði og flotbryggju við Hesteyri í Jökulfjörðum. Þau Hafsteinn og Kiddý hafa byggt upp öflugt fyrirtæki í ferðaþjónustu á liðnum árum með mikilli elju og umhyggju. Aðalsmerki fyrirtækisins hefur verið að öll þjónusta og aðstaða í bátunum er til fyrirmyndar.
Í auglýsingu frá fasteignasölunni Valhöll segir að auk almennra farþegaflutninga hafi fyrirtækið sinnt þjónustu við farþega skemmtiferðaskipa sem koma til Ísafjarðar með samningi við Vesturferðir um ferðir til Hesteyrar og í Vigur. „Um 80-90 skemmtiferðaskip koma til Ísafjarðar hvert sumar og er um að ræða mjög ábatasaman rekstur,“ segir í auglýsingunni.