Fjárfesta í framtíðinni á afmælisárinu

Skjöldur Pálmason, framkvæmdastjóri Odda hf., Valdimar Sigurðsson, svæðissölustjóri Marel og Sigurður Viggósson, stjórnarformaður Odda hf., takast í hendur til að staðfesta samning um uppsetningu FleXicut. Mynd af heimasíðu Marel.

Fiskvinnslan Oddi hf á Patreksfirði fagnar 50 ára starfsafmæli í ár og hefur fyrirtækið vaxið og þróast í takt við tíðarandann á hálfri öld. Í dag tók Oddi í notkun nýtt FleXicut kerfi frá Marel, sem er vatnsskurðarvél sem greinir og sker burt beingarð, þunnildi og sporð með mikilli nákvæmni og hlutar svo flökin niður í bita samkvæmt óskum viðskiptavinar. Þá var einnig sett upp FleXisort kerfi sem er sérhannað til þess að taka við afurðum frá FleXicut og dreifa á mismunandi afurðarlínur með nýrri vipputækni sem stuðlar að bættri hráefnismeðhöndlun.

Skjöldur Pálmason, framkvæmdarstjóri Odda segir búnaðinn gera fyrirtækinu kleift að bjóða upp á fleiri vörulínur fyrir viðskiptavini þeirra og með þeim hætti nái fyrirtækið forskoti í samkeppni við aðra framleiðendur og geti boðið upp á fyrsta flokks vöru, hvort sem um er að ræða ferska hnakka eða flök.

Skjöldur segir afmælisárið vera kjörinn tíma til að fjárfesta í framtíðinni: „Síðastliðið ár höfum við gert miklar fjárfestingar og segja má að uppsetning FleXicut kerfisins sé hápunkturinn á ferlinum og fullkomin leið til þess að halda upp á hálfrar aldar afmælið.”

Ekki er einvörðungu haldið upp á starfsemi í hálfa öld með nýjum búnaði. Allt starfsfólk fyrirtækisins til sjós og lands ásamt fjölskyldum, 137 manns, er nýkomið heim úr vikuferð til Tenerife. Skjöldur segir ferðina, sem hefur verið í undirbúningi í langan tíma, hafa lukkast frábærlega og allir komið gríðarlega ánægðir til baka.

annska@bb.is

DEILA