Auðkúluhreppur: Hreppsnefndin setur blátt bann við allri plastnotkun!

Tjaldanes í Auðkúluhreppi.

Alltaf er eitthvað að frétta úr Auðkúluhreppi þegar sumir aðrir hreppar eru kannski fjarri góðu gamni. Og nú er hreppsnefnd Auðkúluhrepps komin úr sumarfríi.

Grunur lék á að menn hafi jafnvel farið þreyttir og með urg í fríið, eins og sagt var frá í fréttum um daginn, en komu samt þreyttari en með þokkalega geðheilsu til baka. Sumir „duttu í ðað“ svona eins og gengur. Svo sungu þeir glatt þegar þeir komu heim: „Hreppstjórinn er húfulaus og oddvitinn er ekki laus við rúmbu og rokk.“ Héldu svo fund á Tjaldanesi í gær kl. 16,00. Þar voru samþykktar þessar fínu ályktanir. Hér skulu nokkrar nefndar, en þær eiga sko skilið að komast í fjölmiðla:

Samþykkt var með öllum atkvæðum að Auðkúluhreppur verði áfram á undan sinni framtíð eins og verið hefur.

Þá var samþykkt að greiða fyrir hlaupatófur 7,000,- kr. á skottið. Minkaskott 10,000,- kr. (Birt án ábyrgðar!) Síminn er þrjár stuttar (Það er sko gamli sveitasíminn!) Ef hann svarar ekki verða menn bara að reyna í gegnum Miðstöð, á útlensku Operator.

 

Hver gleypir so manninn?

„Mannskepnan er nú loks að fatta að hún er á góðri leið með að fylla heimshöfin af plasti (þetta er ægilegt!) Fiskurinn gleypir svo plastið og maðurinn gleypir fiskinn. En hver ætli gleypi loks manninn? Nefndin óttast að á endanum verði það græðgin.“

 

Blátt bann við allri plastnotkun!

„Nefndin samþykkir að leggja blátt bann við allri plastnotkun í hreppnum frá og með 15. ágúst. Felur hún hreppstjóra að fara nú milli bæja og leggja hald á allt plast sem hann kemst höndum undir. Setja það svo undir lás og slá í þinghúsi hreppsins undir Auðkúlubökkum, en þar fór fram Kúlubardaginn mikli 1956 sem kunnugt er. Það var mesta fólkorusta á Vestfjörðum allt frá Flóabardaga.“

Plastverksmiðjunni lokað!

„Þá verði settur slagbrandur fyrir plastverksmiðju hreppsins, Plastic Union. com í Hokinsdal og útibúið í Gíslaskeri frá og með Höfuðdegi 29. ágúst. Var þess farið á leit við gamla sýslumanninn að hann setji innsigli á útidyrnar.“

Fleira gert sem verður ekki sagt frá opinberlega að svo stöddu.

Fundi slitið.

Grelöð Bjartmarsdóttir, jarls á Írlandi,

fundarrritari.

DEILA