Mikið hefur verið um að vera á Sauðfjársetrinu á Ströndum í sumar, margvíslegar uppákomur og viðburðir. Framundan er svo stærsta samkoma ársins, Íslandsmeistaramótið í hrútadómum, sem verður haldið sunnudaginn 18. ágúst og hefst kl. 14:00 í Sævangi við Steingrímsfjörð.
Ester Sigfúsdóttir framkvæmdarstjóri Sauðfjársetursins segir að undirbúningur fyrir helgina gangi mjög vel: „Það er alltaf góð þátttaka í hrútadómunum. Keppt er bæði í flokki þaulreyndra hrútadómara og líka í flokki óvanra og hræddraþuklara. Þetta er alltaf mjög skemmtilegt, svo við erum bara glöð og spennt og vonumst eftir góðri mætingu,“ segir Ester hress.
Hrútadómarnir sjálfir fara þannig fram að ráðunautur fer fyrir dómnefnd sem metur fjóra íturvaxna hrúta með nútíma tækjum og tólum og raðar þeim í gæðaröð fyrirfram. Síðan reyna keppendur sig við matið á hrútunum með hendur og hyggjuvit að vopni og reyna að komast að sömu niðurstöðu og dómararnir. Þeir óvönu láta duga að raða hrútunum í sæti frá eitt til fjögur og færa rök fyrir máli sínu. Þeir vönu gefa hins vegar hrútunum stig fyrir einstaka þætti (hryggur og læri skipta þar miklu máli) og fara þá eftir stigakerfi sem bændur gjörþekkja. Veglegir vinningar eru í boði fyrir sigurvegara í báðum flokkum.
Að venju verður kjötsúpa á boðstólum og kaffihlaðborð allan liðlangan daginn. Einnig er stórskemmtilegt happdrætti og eru líflömb í vinning. Kostar miðinn 800 kr. og geta þeir sem komast ekki á staðinn keypt sér miða í gegnum Facebook síðu Sauðfjársetursins eða hjá Ester í síma 693-3474.
Á síðasta ári sigraði Ragnar Bragason á Heydalsá við Steingrímsfjörð, í öðru sæti var Elvar Stefánsson í Bolungavík og þriðji sæti varð Guðmundur Gunnarsson á Kjarlaksvöllum í Dölum. Sigurvegarinn í flokki vanra fær verðlaunagripinn Horft til himins til varðveislu í eitt ár.
Ester hvetur að lokum alla til að leggja leið sína á Strandir á sunnudaginn og taka þátt í þessum skemmtilega degi.