Langflestir skólar með of litla verk- og listkennslu

 

Verulegur misbrestur er á því hvernig grunnskólar ráðstafa kennslumínútum í list- og verkgreinum, samkvæmt könnun menntamálaráðuneytisins. Þrír af hverjum fjórum grunnskólum bjóða upp á of litla kennslu í greinunum fyrir 5. til 7. bekk, miðað við lágmarksviðmið aðalnámskrár. Grunnskólanemendur fá víða ekki lögbundna kennslu í greinunum. Mennta- og menningarmálaráðuneytið bað Hagstofuna um að afla upplýsinga um fjölda kennslustunda í list- og verkgreinum í grunnskólum. Í ljós kom að verulegur misbrestur er á því að nemendur fái lögbundinn fjölda stunda – sem þeim ber samkvæmt lágmarksviðmiðum í aðalnámskrá frá 2011. Fögin eru tónmennt, myndmennt, sviðslistir, hönnun, smíði, textílmennt og heimilisfræði. Skólaárin frá 2013 til 2016 voru skoðuð og var kennsla öll árin undir lágmarksviðmiðum. Skólarnir ráða hvernig mínútum í verk- og listgreinum er ráðstafað og skila inn skýrslu þar um til Hagstofunnar.

Í fyrra uppfylltu 75 prósent grunnskóla ekki viðmið fyrir kennslu í 5. til 7. bekk. Hlutfallið er um 70 prósent fyrir 8. til 10. bekk og 46 prósent fyrir 1. til 4. bekk. Skólarnir sem ekki uppfylla lágmarksviðmiðin eru um allt land og dreifast misjafnlega eftir aldri nemenda. Í frétt á vef ráðuneytisins segir að þetta sé verulegur misbrestur og að ráðuneytið muni upplýsa sveitarfélög um þessa niðurstöðu, sem sé ekki ásættanleg, og ítreka mikilvægi þess að réttur nemenda til lágmarksfjölda kennslustunda í list- og verkgreinum samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla sé virtur.

DEILA