Fjórðungarnir eigi síðasta orðið í umhverfis- og skipulagsmálum

Þær staðreyndir sem fram koma í grein formanns fjórðungssambands Vestfirðinga fyrir stuttu, hafa marg komið fram áður, en það eru of margir sem eru að tjá sig virðast ekki hafa þekkingu á hvernig raforka dreifist, og hafa hátt um að orkan fari beint á þennan stað eða hinn. Trúlega þjónar betur að vera með slíkar staðhæfingar, þá stökkva fleiri hávaðaliðar á asnakerruna hjá þeim. Skýrsla Landsnets segir aðra sögu og byggir á staðreyndum, það get ég tekið undir eftir að hafa unnið í þessum orkugeira um 40 ár.

Dæmi: einn kaldan vetrardag s.l. vetur fóru um 30 MW frá Hrútatungu til vesturs í Dali og Vestfirði, væri til dæmis Hvalá eða sambærileg virkjun í fjórðungnum sem væri að framleiða 30 til 40 MW þá væru að fara þetta 0 til 10 MW frá Vestfjörðum inn á landskerfið hvar svo sem það er notað. Þar sem allt rafmagn er framleitt inn á eitt kerfi þá væri þess vegna hægt að kaupa rafmagn af Hvalá á Seyðisfirði.

Það má eflaust deila um rammaáætlunina sem verndarsinnar töldu til kraftaverka á sinni tíð, en Hvaláin lenti í nýtingarflokki, og nú kemur enn ein sönnunin til viðbótar á að löggjafinn sá ekki út fyrir borðstokkinn, það þarf að búa þannig um hnútana að eftir að vatnsfallið er komið í nýtingarflokk þá séu allar kæruleiðir fullnýttar. Var rammaáætluninn ekki að þvælast í kerfinu í fleiri ár?, svo nægur tími var til að koma ólíkum sjónarmiðun á framfæri.

En hvar hafa allir kærendurnir verið þeir hljóta að hafa sofið vært s.l. áratug eða svo? Því voru þessir aðilar sem allt í einu segjast eiga hluta af fyrirhuguðu virkjanasvæði ekki búnir fyrir löngu að lýsa sínum kröfum? Svo hljóta þeir að eiga kvittanir fyrir greiðslum til sveitarfélagsins og ríkisins er varða umrætt landsvæði til að styðja sitt mál. m.ö.o hafa þeir sem segjast eiga landið greitt sveitarfélagi/ríki skilvíslega gjöld af eigninni?. Séu þessar kvittanir ekki til, er þá ekki landið allt löngu komið í eignarhald sveitarfélagsins vegna ógreiddra gjalda e.t.v. margra ára gamlar skuldir. Og nú loks þegar langþráðar vegabætur eru áformaðar er ekki rétt merki á vinnuvélinni, því er alls ekki ofsagt að margt er skrýtið í kýrhausnum.

Er þetta þá bara ekki upphlaup fólks sem er búið að missa jarðtenginguna og búið að læra sig burtu frá raunveruleikanum, til að valda vandræðum, álíka og upphlaupið vegna Teigshrísins, kostað af öfgasamtökum á borð við Landvernd sem löngu er búinn að skíta upp á bak í fjölmörgum málum er varða landsbyggðina, en hefur þó einstöku sinnum slysast til að gera gagn. ( Kærendalistinn er ekki sannfærandi lesning ). Sú spurning er að vakna meðal Vestfirðinga hvort atferli og áróður félags veiðirétthafa Landverndar og þeirra áhangenda á alla starfsemi og framfarir í Vestfirðingafjórðungi sé ekki kominn að því að brjóta á stjórnarskrárvörðum rétti manna til að stunda löglega atvinnustarfsemi, og ekki síður hvort ekki sé verið með linnulausum áróðri og afskiptum af málefnum Vestfirðinga að rýra verðmæti eigna almennings-félaga og opinberra aðila í heilum landsfjórðungi, Það þarf því engum að koma á óvart að leitað verði leiða til þess að fá tjón sem þessir aðilar eru að valda heimafólki bætt að fullu. Og þá jafnvel að gefa þeim kost á að kaupa allar eignir og atvinnustarfsemi í fjórðungnum á hæsta Reykjavíkurverði þrjóti önnur úrræði. Venjulegt fólk og félög bera jú ábyrgð á því tjóni sem það veldur, þarna er einbeittur vilji til að valda sem mestu tjóni. Er það ef til vill tilfellið að þessir hávaðasömu einstaklingar, séu eins og vel vandir hundar sem aðeins gelta þegar þeim er sigað? og fá svo bein að naga fyrir ómakið.

Valdið heim

Því er löngu orðin brýn þörf og verður sífellt brýnni að fjórðungarnir taki sjálfir við allri forsjá og eigi síðasta orðið í umhverfis- og skipulagsmálum einnig nýtingu á auðlindum fjórðungssins, þá fylgja að sjálfsögðu miðin kringum Vestfirðingafjórðung með, til afnota fyrir heimafólkið, því það er alltaf að koma betur og betur í ljós að sérfræðingarnir að sunnan ráða ekki við verkefnið.

Vestfirðingar eiga nóg af vel menntuðu staðkunnugu fólki sem betur er treystandi til að fara með þessi mál en öfgastofnunum sem sjá ekki út um eigin glugga, og þar að auki virðast flestir starfsmenn þeirra vera búnir að læra sig burtu frá raunveruleikanum.

Nútíma þægindi koma ekki upp úr malbikinu, þau eru öll aðflutt um lengri eða skemmri veg. Það mættu Landvernd, skyld öfgasamtök, og einnig þessir hávaðasömu veruleikafirrtu einstaklingar hafa hugfast og horfa sér nær, áður en þeir fara að skipta sér af öðrum landsvæðum. Hér á suðvestur horni landsins er nefnilega í lagi að rífa niður og sprengja allt í nafni búsetu. Það er að vísu nöldrað yfir sumu en það er ekki sá djöflagangur sem Vestfirðingar hafa orðið að þola og verið vitni að.

Það að framleiða orkuna innan fjórðungs er mikil og jákvæð bót þó tengingin skili e.t.v. ekki alveg orku örygginu sem til er sáð í fyrsta áfanga. Eignarhaldið er ekki það sem skiptir höfuðmáli því mannvirkið er í fjórðungnum og nýtist þar sem slíkt, virkjunin verður ekki flutt neitt annað, þessi mannvirki eru undantekningalaust þannig hönnuð að eftir að framkvæmdum líkur er eins og mannvirkið hafi alltaf staðið þarna. Það er eini gallinn við Hvalá að hún er langt frá notendunum.

Ég minnist þess að nokkur hávaði var í þessum atvinnu mótmælendum meðan verið var að byggja miðlunarmannvirkin uppi á hálendinu og við gerð Kárahnjúka virkjunar og miðlana, en í dag er þetta fjölfarnir ferðamannavegir sem aðeins segir okkur það, að ferðaþjónusta og orkuvinnsla styðja hvert annað. Vegirnir inn á hálendið væru ekki til staðar nema fyrir atbeina virkjunaraðila. Ekki á ég von á öðru en svipað verði uppi á teningnum við Hvalárvirkjun.

En fleiri virkjanir er hægt að reisa, talað er um virkjanir í fjörðunum í Djúpinu sem samtals gætu skilað um eða yfir 100 MW og svo mætti fá um 30 MW úr Vatnsdalsánni á Barðaströnd ( Vatnsfjörðurinn og Hörgsnesið er að vísu friðland sem enginn hefur aðgang að nema rollurnar frá næstu bæjum en því má breyta), þar kæmi tengingin inn á Mjólkárlínu 1 (Vesturlínu) fyrir norðan um 90% af þeim truflunum sem orðið hafa á henni í gegnum árin. Innan við Vatnsdalsvatnið, þegar búið er að leggja þangað góðan veg og rafmagn er til staðar, (einnig að leggja veg um þrætuhrísið) er hægt að gera útivistarparadís fyrir þessa graslausu af mölinni sem hafa hvað hæst. Vatnsdalsáin verður að sögn kunnugra bráðgóð laxveiðiá þegar búið er að jafna í henni rennslið.

Virkja utan eldvirka beltisins

Leggja svo 60 KV línu/streng til Patreksfjarðar með úttaki fyrir sveitina á Krossholtinu, þá væri dieselstöðin á Patró nánast óþörf. Einnig er til gömul hönnum af virkjun í Suðurfossá á Rauðasandi en sú er miklu minni en væri samt til stórbóta. Íslendingar þurfa nauðsynlega að virkja allt það vatnsafl utan eldvirka beltisins sem tiltækt er.

Í sjónvarpinu s.l. haust var minnst á einmitt það atriði, þar kom fram hjá jarðvísindamönnum að það er ekki spurningin hvort náttúruöflin vakna heldur aðeins hvenær þær hamfarir verða, sem stoppað geta okkar stærstu aflstöðvar í lengri eða skemmri tíma. Þá er gott að eiga virkjanir utan eldvirka beltisins svo eitthvað rafmagn verði tiltækt, sérfræðingarnir hefðu þá e.t.v. eitthvað rafmagn, til að skrifa sínar draumóraskýrslur, á alla rafmagnsbílana og hita, því án rafmagns er hitaveitan að mestu óstarfhæf ef náttúruöflin stoppa hana ekki líka. Hvar stöndum við þá?

En tvískinnungur og hræsni þeirra sem tala fyrir náttúruvernd er þvílíkur að það hálfa væri nóg. Það er ekki nóg að vilja jarðefnaeldsneytið burt, þegar ekki má virkja eða byggja flutningsmannvirki, og segja svo, bara að fjölga varavélum, það er ekki verið að hugsa um kolefnissporið við að keyra rafmagnið frá stórum dieselvélum bara ef hægt er að skemma fyrir okkur Vestfirðingum það sem þykir sjálfsagt í öðrum landshlutum.

Það er dagsatt að loftlínurnar eru ekkert augnayndi en samt eru þær skárri en strengur sem flytur sama afl, Þar sem svona aflstrengur er lagður er oftast skipt um jarðveg við það verður til um 6 m breiður vegslóði sem ekki er hægt að nota sem þjóðveg. Svo er ekki útilokað að sandurinn okkar sé of mikið einangrandi og flytji þar með ekki varmann nógu hratt frá stórum aflstrengjum, það kostar örugglega mikið ef flytja þarf inn sand sem uppfyllir varmaflutnings þörfina. Svo framleiða strengir sem eru reknir á 130 KV spennu nálægt því 10 sinnum meira launafl en sambærileg loftlína og því þarf að eyða svo eitthvað komi út úr strengendanum, það er gert með stóru spóluvirki sem reisa þarf með reglubundnu millibili meðfram lagnaleiðinni. Svo er það mikil vinna og dýr að leggja svona strengi yfir kletta og klungur svo vel sé.

Svo er það sýnileikinn, strenglögnin (lagnaleiðin) er og verður víðast hvar vel sýnileg um langa framtíð, en verði loftlína óþörf er einfalt að taka hana niður þá sést ekkert hvar hún var þ.e.a.s. afturkræf framkvæmd.

Islendingar nota mikla raforku og hana þarf að flytja misjafnlega langar vegalengdir, til þess þarf flutningsmannvirki sem oftast er háspennulína að borgar/bæjarmörkum og svo strengir innanbæjar. Ég vil meina að flutningsmannvirki raforku og tengivirki séu orðin hluti nútíma þjóðfélags, því það er allflest í þjóðfélaginu sem gengur fyrir rafmagni.

Er almenningur tilbúinn að greiða mun hærra verð en nú er og leggja jarðstrengi með tilheyrandi slóðum og spóluvirkjum. Svo ef og þegar strengur bilar getur tekið viku að staðsetja bilun og aðra að gera við, en á loftlínuni sést hvar bilun er og tekur oftast innan við sólarhring að gera við. Er almenningur í jafnvel heilum landshluta eða bæjarfélagi tilbúinn að vera í myrkri og kulda meðan gert er við og hvort er betra að vera rafmagnslaus í sólarhring eða svo, eða jafnvel viku eða tvær?.

En til að tryggja sér raforku í bilanatilfellum þegar aðeins er ein flutningsleið er að viðkomandi svæði ekki annað til ráða en að kaupa stórar dieselvélar sem nota nokkur hundruð lítra af dieselolíu hver á klukkustund. Hver klukkustund þegar Mjólkárlína er úti eða bilun í flutningskerfum gera líklega hátt í 10.000 lítra þegar allt er talið. ( fjarvarmaveiturnar eru þar með). Það er gróf þumalputtaformúla að til að framleiða 1000 kw þarf nálægt 300 lítra af dieselolíu.

Að lokum er það þriðji orkupakkinn, við munum öll eftir því að áður en 1. pakkinn var innleiddur var almenningi sagt að innleiðingin hefði ekkert að segja en reyndin varð 10 til 14% hækkun til almennings. Er ekki lang skynsamlegast að láta þjóðina ráða þessu atriði.

En kynna fyrst betur allar hliðar á þessum pakka.

Ingimundur Andrésson.

Vélfræðingur og Rafvirki.

fyrrverandi vélstjóri og rafvirki

hjá Orkubúi Vestfjarða.

DEILA