Vestri tapaði en er enn í 2. sæti

Vestri skorar í leik á Torfnesi.

Fjórtánda umferðin í 2. deildinni í knattspyrnu var leikin í gærkvöldi. Vestri lék á Akranesi við lið Kára. Skagamenn skoruðu á 17. mínútu og þar við sat.

Hákon Ingi Einarsson fékk rauða spjaldið á 57. mínútu og í uppbótartíma fékk einn úr liðsstjórn Vestra rautt spjald.

Bjarni Jóhannsson, þjálfari var ósáttur við dómarann og sagði að það væri algerlega í stíl við getu dómarans í leiknum að dómarinn skráði seinna rauða spjaldið á rangan mann.

Að sögn Bjarna var Vestri mun betra lið í leiknum og hafði töluverða yfirburði en gekk illa að skapa sér færi og nýtti ekki þau sem gáfust.

Þrátt fyrir tapið er Vestri enn í 2. sæti þar sem Selfoss tapaði á heimavelli 2:4 gegn ÍR. Leiknir frá Fáskrúðsfirði styrkti stöðu sína á toppi deildarinnar með heimasigri gegn Dalvík/Reyni og er með fjögurra stiga forystu á Vestra.

Bjarni sagði það lýsandi fyrir deildina að öll liðin væru með svipaða veikleika og ættu erfitt með að vinna stig á útivelli og það væri ekki mikill getumunur á liðunum. Til marks um það þá munar aðeins 5 stigum á Vestra í 2. sæti og á Fjarðabyggð sem er í 9. sæti deildarinnar.

DEILA