Messað á Ingjaldssandi – Sæbólskirja 90 ára

Sæbólskirkja. Mynd: kirkjukot.net.

Messað verður í Sæbólskirkju klukkan 20:00 sunnudaginn 4. ágúst. Prestur er sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir á Þingeyri.

Halla Signý Kristjánsdóttir frá Brekku á Ingjaldssandi sendi Bæjarins besta eftirfarandi minnispunkta:

Í ár verður Sæbólskirkja 90 ára, en hún var vígð 29. september 1929.

Guðjón Samúelsson arkitekt teiknaði Sæbólskirkju og er hún ein af hans fyrstu kirkjuteikningum. Á kirkjunni er fallegur keltneskur kross.

Í aftakaveðri í janúar 1924 fauk timburkirkja sem reist hafði verið á Sæbóli Ingjaldssandi árið 1858. Þá efndi 70 manna söfnuður kirkjunnar til fjársöfnunar um Dýrafjörð, Önundarfjörð og meðal brottfluttra í Reykjavík, svo unnt yrði að byggja nýja kirkju. Lokið var við kirkjubygginguna árið 1929 og var kirkjan vígð 29. september sama ár. Smiður kirkjunnar var Torfi Hermannsson, sem ættaður var frá Fremstuhúsum í Dýrafirði. Altaristöfluna málaði Björn Guðmundsson, kennari og síðar skólastjóri á Núpi, eftir forsögn séra Sigtryggs Guðlaugssonar sem var prestur við kirkjuna og hann vígði hana. Torfi kirkjusmiður smíðaði og gaf skírnarfontinn, en skírnarskálin er eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal. Guðrún Vigfúsdóttir frá Tungu í Valþjófsdal málaði skírnarfontinn. Útskurður í kirkjunni er eftir Gumund úr Mosdal og bróðir hans Jón Jónsson bónda og kirkjuhaldara á Sæbóli.

Fjölda merkra og fallegra muna er í kirkjunni, kirkjuklukkur frá 16 og 17 öld. Silfurkalekur frá 1737 og eirhjálmur sem á er letrað ártalið1649. Ekki er það staðfest um tilurð hans í kirkjunni en til eru tvær frásagnir af því. Annars vegar að það sé gjöf frá frönskum skipbrotsmönum sem var bjargað við Ingjaldssand og hin að hún sé gjöf frá Mála-Snæbirni og hann hafi fengið hjálminn frá Danmörku.

DEILA