Á laugardaginn tryggði Vestri sér deildarmeistaratitilinn í 1. deild karla með 3-1 sigri á Fylki á útivelli. Vestri er með 36 stig og á enn eftir að spila þrjá leiki en ljóst er að ekkert lið getur náð þeim. Þar með hefur liðið líka tryggt sér rétt til að spila í úrvalsdeild á næsta keppnistímabili. Í leiknum vantaði tvo leikmenn sem hafa verið í byrjunarliði í vetur. Kári Eydal spilaði stöðu frelsingja í stað bróður síns, en Kári er aðeins 12 ára gamall. Gautur Óli Gíslason, jafnaldri Kára, kom einnig við sögu í leiknum. Fylkir er í neðsta sæti 1. deildar með sex stig.
Um síðustu helgi vann Vestri úrvalsdeildarlið Þróttar R/Fylkis í átta liða úrslitum Kjörísbikarsins og eru því komnir alla leið í fjórðungsúrslitin sem verða spiluð í Laugardalshöllinni þann 7. apríl. Það er ansi óvænt staða fyrir Vestra og hefur vakið athygli í blaksamfélaginu á Íslandi og ljóst að Tihomir Paunovski er að gera góða hluti, bæði sem þjálfari og leikmaður.