Helena Jónsdóttir sálfræðingur opnar stofu á Ísafirði

Helena Jónsdóttir, sálfræðingur.

Helena Jónsdóttir mun formlega taka til starfa sem sálfræðingur á Ísafirði 15. ágúst 2019 á Ísafirði.

Hún mun starfa á eigin stofu sem staðsett verður í Suðurgötu 9 á Ísafirði, þar sem starfsemi Starfsendurhæfingar Vestfjarða og Vesturafls eru til húsa.

 

Ekki hefur verið starfandi sálfræðingur á Vestfjörðum síðustu árin að undanskildu stuttu tímabili 2017-2018 þegar sálfræðingur starfaði á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Ísafirði.

 

Helena Jónsdóttir hefur undanfarið ár verið skólastjóri Lýðháskólans á Flateyri. Hún hefur líkt og aðrir aðstandendur skólans lagt bæði líf og sál í uppbyggingu skólans og vakið verðskuldaða athygli fyrir framúrskarandi frammistöðu. Nú hefur Helena ákveðið að söðla um og færa sig yfir í verkefni sem hún er menntuð til og hefur starfað mikið við.

 

Helena Jónsdóttir segir að hún starfi eftir aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) og í boði verða bæði einstaklingsviðtöl og fyrirlestrar og námskeið fyrir hópa. Helena hefur sérhæft sig í meðferð við kvíða, þunglyndi, streitu og svefnvanda auk þess sem hún mun veita almenna sálfræðiþjónustu.

Gera má ráð fyrir að Helena taki að sér skjólstæðinga frá fyrirtækjum og stofnunum á Ísafirði og norðanverðum Vestfjörðum auk þess að einstaklingar geta leitað beint og milliliðalaust til hennar.

Helena Jónsdóttir lauk BA í sálfræði 1995 og MA 2010. Eftir það starfaði hún 5 ár hér heima og síðar í 3 ár erlendis sem sálfræðingur á vegum samtaka lækna án landamæra í Afganistan, Súdan, Líbanon og Egyptalandi.

Helena viðurkennir að það fylgi hætta því að starfa sem læknir án landamæra á ófriðarsvæðum , en útilokar samt ekki að fara aftur síðar.

Af hverju? Hvað dregur þig til þessara staða?

„Þetta er ótrúlega gefandi. Lífið fær tilgang með því að leggja sig fram við að aðstoða fólk í neyð og því fylgir mikið gleði að geta bætt líf þeirra sem hafa upplifað hræðilegar aðstæður“ segir Helena og viðurkennir að þessi lífsreynsla hennar togi í hana.

Draumurinn

En framundan er að starfa á Vestfjörðum, þar sem sérfræðingar eru frekar sjaldséðir og koma þá helst sem gestir og starfa fáa daga í senn.

Hvers vegna viltu vinna á Vestfjörðum og þar að auki eiga heima á Flateyri en vinna á Ísafirði?

„Þeir sem þekkja mig vita að mig hefur í mörg ár dreymt um að búa á Flateyri og vinna sem sálfræðingur á Ísafirði. Að fá tækifæri til að búa hér í fallegu og þéttu samfélagi í nálægð við náttúruna og uppfylla á sama tíma vöntun fyrir þá þjónustu sem ég get veitt er eitthvað sem mig hefur lengi dreymt um að gera. Og nú er ég að láta þann draum rætast.“

 

DEILA