Vill rjúfa stöðnun í húsbyggingum á landsbyggðinni

Ásmundur Einar Daðason er á toppnum í trausmælingu á ráðherrum á Vesturlandi og Vestfjörðum.

Fyrirhugaðar eru breytingar á lögum um almennar íbúðir, sem m.a. er ætlað að  bregðast við misvægi á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs á landsbyggðinni. Markmið breytinganna er að gera sveitarfélögum á landsbyggðinni kleift að byggja íbúðir í almenna leigukerfinu með stofnframlagi ríkisins.

Félags- og barnamálaráðherra hefur birt áform sín í samráðsgátt stjórnvalda um að breyta lögum og reglugerðum til að styrkja húsnæðismarkaðinn á landsbyggðinni og koma til móts við áskoranir sem fjölmörg sveitarfélög standa frammi fyrir í húsnæðismálum.

Meðal tillagna sem eru að finna eru:

  1. Aukið Viðbótarframlag : 6% viðbótarframlag nær oft ekki að brúa bilið sem er nauðsynlegt til þess að fyrirhuguð bygging íbúða standi undir sér. Því er hreyft þeirri hugmynd að rýmka reglurnar þannig að heimilt sé að veita mishátt framlag eftir aðstæðum á hverjum stað í samræmi við forsendur sem nánar verði útfærðar í reglugerð. Þá verði einnig hægt að veita framlögin annað hvort samhliða almennum stofnframlögum eða sjálfstætt, og verði þá heimilt að leigja íbúðina út til leigjenda yfir tekju- og eignamörkum á grundvelli forgangsröðunar.
  2. Styrkir til uppbyggingar á köldum markaðssvæðum. Styrkir yrðu eingöngu veittir á svæðum sem flokkast til kaldra markaðssvæða þar sem ríkt hefur stöðnun í húsnæðismálum þrátt fyrir að mikill skortur sé á íbúðarhúsnæði. Styrkirnir gætu verið þríþættir og snúið m.a. að eftirfarandi þáttum:
    • Styrkur vegna fyrirhugaðra verkefna. Mögulegt væri að veita styrki m.a. vegna kostnaðar við hönnun og rannsóknir vegna fyrirhugaðra nýbygginga.
    • Styrkur til nýbygginga. Mögulegt væri að veita styrk á svæðum þar sem misvægi er á milli byggingarkostnaðar og söluverðs íbúða. Styrkur tæki mið af markaðsaðstæðum í hverju tilfelli fyrir sig en gæti að hámarki numið 15-20% af byggingarkostnaði verkefnis og að hámarki 5 milljónum á hverja íbúð.
    • Styrkur til endurbóta/breytinga á eldra húsnæði. Þá væri mögulegt að veita styrk vegna endurbóta á íbúðarhúsnæði og/eða vegna breytinga á eldra húsnæði í íbúðarhúsnæði þar sem verið er að fjölga íbúðum á svæði þar sem skortur er á íbúðum og stöðnun ríkir á húsnæðismarkaði. Fari kostnaður við endurbætur umfram það sem talist getur eðlilegt veðrými þegar tekin eru endurbótalán, væri hægt að veita styrk sem kemur til móts við þann umframkostnað. Styrkur getur að hámarki numið 20% af kostnaði vegna endurbóta/breytinga og að hámarki 2 milljónum fyrir hverja íbúð.

Tillögur þær sem félags- og barnamálaráðherra kynnir í dag í samráðsgáttinni byggja meðal annars á tilraunaverkefni Íbúðalánasjóðs með sjö sveitarfélögum og er ætlað að bregðast við ofangreindum áskorunum landbyggðarinnar.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íbúðalánasjóði.

Ríkið þarf af rjúfa markaðsbrestinn á húsnæðismarkaði

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Niðurstöður tilraunaverkefnis Íbúðalánasjóðs á landsbyggðinni sýna að það ríkir markaðsbrestur á húsnæðismarkaði víða á landsbyggðinni. Enginn er að svara eftirspurninni þrátt fyrir að næg kaupgeta sé fyrir hendi hjá íbúum í þessum sveitarfélögum. Ég tel að það þurfi aðgerðir af hálfu stjórnvalda til að rjúfa þá stöðnun sem ríkt hefur í húsbyggingum á landsbyggðinni. Ef við lítum til baka þá sést að hrunið hafði meiri eftirköst í för með sér fyrir húsnæðismarkaðinn úti á landi heldur en á suðvestur-horninu. Nýbyggingar hafa verið sjaldséðar utan stærstu atvinnusvæða en fólk sem býr utan þessara svæða þarf líka nýtt húsnæði. Það er uppgangur í nýjum atvinnugreinum á landsbyggðinni og oft er skortur á húsnæði helsta vandamál fólks sem ræður sig í þau störf.“

DEILA