Grikkinn sem hafði gert tilboð í eyjuna Vigur hefur dregið tilboðið til baka. Davíð Ólafsson, fasteigansali segir að Grikkinn sé ekki endilega þar með hættur við. Það sem mun trufla hann eru reglur um sóttkví fyrir hunda þegar ferðast er inn og úr landi.
Davíð segir að það séu þrír aðilar sem hafi áhuga á að kaupa og eru að kanna möguleika á fjármögnun. Áhuginn hefur heldur aukist eftir síðustu umfjöllun í fjölmiðlum að sögn Davíðs. Eins verði vart við að innlendir jarðaeigendur hafi meiri áhuga á að selja.
Reglur um takmörkun þyrluflugs vinna gegn því að erlendir aðilar kaupi jarðir segir Davíð. „Í friðlandinu norðan Djúps má þyrla ekki snerta jörð og Vigur er friðlýst á ákveðnum tíma árs. Þessir erlendu aðilar vilja geta notað þennan ferðamáta“ segir Davíð Ólafsson.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók málið fyrir á fundi sínum í gær og bæjarráðið undirstrikaði vilja sinn til þess að ríkið kaupi Vigur og lýsti eftir afstöðu umhverfisráðherra við fyrri áskorun Ísafjarðarbæjar á umhverfisráðherra og ríkisstjórn Íslands um að kaupa eyjuna Vigur í Ísafjarðardjúpi.