Ferðaþjónustan í Reykjarfirði í gamla Grunnavíkurhreppi gengur vel að sögn aðstandenda. Veðrið hefur verið gott í sumar og mikill fjöldi ferðamanna, en þó aðeins færra en í fyrra. Í sumar hafa komið þrjú skemmtiferðaskip sem gekk mjörg vel. Gestirnir fara í styttri göngur, fara í laugina og fá sér svo kaffi og meðlæti og allir glaðir að sögn Steinunnar Ragnarsdóttur.
Reykjarfjörður er utan friðlandsins og þess vegna nær bann við landtöku farþega skemmtiferðaskipa ekki til hans. Farþegar fara því óhindrað í land og skipta við ferðaþjónustuna í Reykjarfirðinum.
Fyrirtækið Svaðilfari sem er í eigu Þórðar Halldórssonar bónda á Laugarlandi í Skjaldfannardal hefur komið þrjár ferðir (hestaferðir) þetta sumarið. Hann byrjar ferðina heima hjá sér og fer í Reykjarfjörðinn og þaðan að Dröngum og svo heim yfir jökulsporðinn. Þetta eru 6 eða 7 daga ferðir hjá honum. Þórður hefur gert þetta í hartnær 25 ár.
Þá koma fjölmargir gangandi í Reykjarfjörð úr ýmsum áttum en einkum vestan úr Jökulfjörðum, áir þar og nýtur sundlaugarinnar og heita vatnsins áður en haldið er áfram og ein leiðin er að ganga yfir í Árneshreppinn að dröngum og þaðan í Norðurfjörð.