Knattspyrnulið Vestra átti góðan leik í gær á Torfnesvellinum og lagði Húsvíkingana að velli með einu marki gegn engu. Markið gerði Zoran Plazonic á 62, mínútu úr vítaspyrnu.
Í fyrri hálfleik voru Völsungar heldur aðgangsharðari og áttu nokkur góð færi til þess að skora mark og þar af eitt sem var algert dauðafæri en þeim mistókst að nýta þau. Í síðari hálfleik voru heimamenn í Vestra með betri tök á leiknum og gáfu fá færi á sér en sóttu töluvert að marki Völsungs. Var Vestri oft nálægt því að gera fleiri mörk.
Í heildina má segja að sigurinn hafi verið sanngjarn en lið Húsvíkinga var erfiður andstæðingur engu að síður.
Vestri er nú í 3. sæti með 21 stig. Selfoss er efst með 23 stig og Leiknir Fáskrúðsfirði er í 2. sæti með 22 stig. Völsungur er í 9. sæti með 17 stig. Tvö efstu liðin vinna sér sæti í fyrstu deild á næsta ári. Leiknar hafa verið 12 umferðir af 22.
Svo jöfn er deildin að ef Völsungur hefði unnið leikinn sætu þeir í 3. sæti og Vestri í 6. sæti.