„Ísafjarðarbær hefur fengið heimild Minjastofnunar til að klára viðgerðir á ærslabelgnum sé meira jarðrask ekki áætlað í sambandi við viðgerðina. Viðgerð mun því klárast á morgun og áætlað er að belgurinn verði kominn í gagnið annað kvöld.“ Þetta segir Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarritari í svari við fyrirspurn Bæjarins besta.
Gamla bæjarstæði Eyarbæjarins var friðlýst sem fornminjar árið 1970. Á uppdrætti sem starfsmaður Minjastofnunar sendi Bæjarins besta má sjá uppmælingu á bæjarhólnum.
Umhverfis friðlýstar fornleifar er 100 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum þeirra. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði umhverfis friðlýstar fornleifar og á fornleifunum sjálfum eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands samanber ákvæði í lögum um menningarminjar.