Ísfirðingurinn Veiga Grétars er rúmlega hálfnuð með hringinn, en hún hefur einsett sér að róa rangsælis umhverfis landið í sumar.
Veiga ætlar með kajaksiglingunni að styðja við Píeta samtökin og kallar verkefnið „Á móti straumnum“.
Veiga lét vel af sér þegar Bæjarins besta heyrði í henni í gær. Hún er stödd á Höfn í Hornafirði og var þar með fyrirlestur í fyrradag þar sem hún ræddi um ferðalagið og sitt lífshlaup, æskuna og hvernig það er að vera transkona.
Hún sagði að draumur sinn væri að vera komin aftur til Ísafjarðar í byrjun ágúst, en ekki væri hægt að slá neinu föstu um það. Enn eru um 900 km eftir.
Heilsan er fín, sagði Veiga en hefur nokkuð lést. „Þetta er 5000 -7000 kalóríur sem ég brenni á hverjum degi og það er erfitt að borða svona mikið“ sagði hún.
Spáð var leiðindaveðri í gær og hélt hún þá kyrru fyrir á Höfn en var að gera sig ferðbúin nú í dag og sagðist vonast til að komast í Hvalsnes í dag og til Neskaupstaðar á 4 dögum.
Ferðalagið hefur að mestu gengið eins og áætlað var að öðru leyti en því að Veiga veiktist í Vík í Mýrdal og var viku frá.
Aðspurð hvað hefði verið erfiðast til þessa svaraði Veiga því til að Suðurströndin væri erfiðust. Það gerir brimið við ströndina og því verður lendingin erfið og ekki síður að komast út aftur. Eitt sinn hefði munað litlu að kajakinum hefðu hvolft í lendingunni og þá hefði getað illa farið. Skeiðarárósinn var erfiður að sögn Veigu, öldurnar brotna illa háfjörunni og hún þurfti að bíða eftir aðfallinu til að komast út.
Eftirminnilegast fannst Veigu vera Látrabjargið, Rauðisandurinn og Mýarnar. Eins fannst henni Reykjanestáin, Garðskaginn og Ingólfshöfði vera falleg.