Elsa María Guðlaugs Drífudóttir hefur verið ráðin til eins árs í starf fréttamanns á Vestfjörðum og Vesturlandi. Umsóknarfrestur rann út þann 10. júní.
Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri hjá RÚV segir að 13 umsóknir hafi borist. „Að loknu ráðningarferli, fréttamannaprófi, lestrarprufum og viðtölum, er búið að ráða í stöðuna. Sú sem var ráðin heitir Elsa María Guðlaugs Drífudóttir og hún kemur til starfa um næstu mánaðamót en fyrst um sinn verður hún í þjálfun hér hjá okkur í Efstaleiti.“
Halla Ólafsdóttir, sem hefur verið fréttamaður RÚV á svæðinu síðan haustið 2015, fer í leyfi eftir verslunarmannahelgi.
Elsa María hefur verið formaður Landssambands íslenskra stúdenta og lét af störfum í lok maí síðastliðinn. Þá hefur hún verið virk í umhverfismálum og meðal annars beitt sér fyrir á þessu ári alþjóðlegu loftslagsverkfalli á vegum Landssambands íslenskra stúdenta í samstarfi við unga umhverfissinna, Stúdentaráð Háskóla Íslands og Samband íslenskra framhaldsskólanema.