Karlablaklið Vestra mun keppa í efstu deild í blakinu á næsta keppnistímabili. Liðið varð efst í fyrstu deildinni á nýliðinni leiktíð. Það hefur reyndar orðið í efsta eða öðru sæti í fyrstu deild síðustu þrjár leiktíðir en hefur samt ákveðið að leika áfram í fyrstu deildinni þar til nú að stóra stökkið er tekið.
Sigurður Jón Hreinsson segir að því fylgi töluverð fjárútlát að spila í efstu deild, einkum vegna ferðakostnaðar og svo þurfi liðið að styrkja sig fyrir átökin í efstu deild.
Aðspurður hvers vegna ákveðið hafi verið núna að stíga skrefið upp í efstu deild segir Sigurður Jón að ef ekki væri rétti tíminn núna væri vandséð að hann yrði nokkurn tíma „en þetta var ekki auðveld ákvörðun. Við eigum eftir að leita til bæjarbúa og fyrirtækja og biðja um styrk.“
Það verða sex lið í efstu deild, KA, Þróttur Neskaupstað, HK, Afturelding, Álftanes og Vestri og spilaðar verða þrjár umferðir. Alls verða því 15 leikir í deildakeppninni og síðan tekur við úrslitakeppni fjögurra eftstu liðanna, „en við erum ekki farin að hugsa um hana“ segir Sigurður Jón Hreinsson.
Deildakeppnin hefst í september og lýkur í marsmánuði næsta ár.
Þjálfari liðsins er Tihomir Paunovski frá Makedóníu og hefur hann þjálfað liðið undanfarin þrjú ár með góðum árangri.
Myndir: Ásgeir Þrastarson.