Ofanflóðanefnd hefur samþykkt beiðni Vesturbyggðar þess efnis að framkvæmdir við varnarviki á Patreksfirði hefjist sem fyrst. Beðið er eftir heimild Samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir (SOF nefndin) til að hefja útboðsferli. Samkvæmt upplýsingum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins 27. júní sl. hefur SOF nefndin ekki tekið ákvörðun í málinu ennþá.
Þetta kemur fram í minniblaði Rebekku Hilmarsdóttur, bæjarstjóra til bæjarráðs Vesturbyggðar. Veiti nefndin samþykki sitt verður Framkvæmdasýslu ríkisins heimilt að bjóða út verkið, en áætlað er að það verði í byrjun september. Framkvæmdin mun taka 3-4 ár og heildarkostnaður um 1,5 milljarður króna.
Í minnisblaðinu segir að unnið sé að deiliskipulagi og rannsóknum:
„Skipulagsfulltrúi hefur haldið utan um deiliskipulag vegna framkvæmdarinnar, en svo unnt sé að ljúka því þarf að grafa könnunarskurð fyrir ofan Urðargötu vegna fornminja. Stefnt er að því að þeirri framkvæmd verði lokið í júlí. Þá hefur Ofanflóðasjóður staðfest að Náttúrustofu Vestfjarða verði veitt fjármagn til fræsöfnunar af svæðinu, bæði í haust og næsta haust, sem unnt verði að nýta til að sá á svæðinu að framkvæmdum loknum. Mögulega verður þeim fræjum blandað saman við Landgræðslublöndu. Þá hefur verið óskað eftir því við Skógræktarfélag Íslands að það meti þau tré sem þurfa að víkja vegna varnarvirkjanna líklegt er að Skógrækarfélag Patreksfjarðar komi að því að einhverju leyti. Þá var rætt um það hvað ætti að gera við það efni sem fellur til við að fjarlægja trén, en ákveðið var að hluti timbrisins yrði nýtt í bekki og borð sem staðsett yrði á áningarstöðum sem verða til við framkvæmdirnar. Annað efni sem fellur til var rætt um að íbúar gætu sótt innan tiltekinna tímamarka eða að efnið yrði hreinsað (greinar fjarlægðar) og það nýtt í áramótabrennu.“
Kynning í dag
Fulltrúar EFLU, Ofanflóðasjóðs og Landmótunar munu funda með bæjarstjórn í dag 4. júlí og í kjölfarið kynna framkvæmdina á íbúafundi sem fer fram í félagsheimili Patreksfjarðar FHP kl. 18.
Gangi áætlanir eftir, er stefnt að því að verktaki geti hafist handa við undirbúning í lok ársins 2019.