Messað og dansað í Aðalvík

Staður í Aðalvík.

Laugardaginn 29. júní var messað í kirkjunni á Stað í Aðalvík.  Það var Átthagafélag Sléttuhreppinga, sem stóð fyrir messunni.  Prestur var sr. Magnús Erlingsson og organisti var Sunna Karen Einarsdóttir.  Almennur söngur var í messunni og hljómaði hann vel enda margt góðra söngmanna á staðnum.  Eftir messu var boðið upp á messukaffi í prestssetrinu á Stað og skráðu sextíu manneskjur sig í gestabók, sem þar lá frammi.  Um kvöldið var svo haldinn dansleikur í samkomuhúsinu á Sæbóli og var þar dansað fram á nótt við harmónikkuspil.

Líkt og meðfylgjandi ljósmynd sýnir þá vex mikið af hvönn í kringum kirkjuna og í kirkjugarðinum og varð að höggva leið í gegnum hvannastóðið svo að fólk gæti gengið til kirkju.  Má segja að Aðalvíkingar hafi þurft að ryðja sér leið til kirkju.

DEILA