Í efnahagslegu uppsveiflunni frá 2010 til 2018 fjölgaði starfandi með lögheimili á Vestfjörðum um 4% en um 24% á landinu öllu. Miðað er við tölur Hagstofu Íslands fyrir fjórða ársfjórðung 2010 og 2018 og þær tölur svo bornar saman.
Starfandi fjölgaði um 150 á Vestfjörðum á þessu tímabili úr 3.803 í 3.953. Fyrir landið allt voru starfandi 2018 196.399 en höfðu verið 158.744 á sama tíma 2010. Fjölgunin er 37.655 sem er 23,7%. Það er óvenju mikil aukning á aðeins 8 árum og staðfestir góðærið sem var á þessum tíma.
15% aukning í Vesturbyggð
Greining á fjölda starfandi á Vestfjörðum eftir sveitarfélögum sýnir að mest varð aukningin í Vesturbyggð. Þar fjölgaði starfandi um 75 sem er 15% aukning frá 2010 til 2018. Í Bolungavík fjölgaði starfandi um 36 eða 7%. Þá varð 14% aukning í Súðavík eða um 13 störf. Störfum í Ísafjarðarbæ fjölgaði aðeins um 2%.
Ef fjöldi starfandi á Vestfjörðum hefði fjölgað jafn mikið og varð á landsvísu hefði þeim átt að fjölga um 901 en ekki 150 eins og varð. Munurinn er 751 starf.
7% samdráttur frá 2005
Séu tölur Hagstofunnar skoðaðar frá 2005 fjórða ársfjórðung sést að nærri 10% samdráttur varð á Vestfjörðum frá 2005 til 2010 og að aukningin frá 2010 hefur ekki náð að vinna upp samdráttinn. Í heildina er 7% samdráttur á Vestfjörðum frá 2005 til 2018. Á sama tíma varð 23% fjölgun starfandi á landinu.
Hlutfallslega varð mestur samdráttur í Árneshreppi 32% og Súðavík 22%. Einnig er mikill samdráttur í Tálknafirði 17%, Ísafjarðarbæ 11% og Strandabyggð 8%.
Vesturbyggð sker sig úr með 13% fjölgun starfandi úr 512 upp í 578. Það er eina sveitarfélagið þar sem vinnumarkaðurinn stækkar svo einhverju munar um. Bolungavík og Kaldrananeshreppur standa nánast í stað á þessu tímabili.