knattspyrna: Vestri fékk skell

Frá leik Vestra gegn Dalvík. Pétur Bjarnason með boltann.

Knattspyrnulið Vestra í 2. deildinn fékk slæman skell á laugardaginn. Liðið lék við KFG, knattspyrnufélag Garðabæjar og eftir markalausan fyrri hálfleik syrti heldur betur í álinn í seinni hálfleik og þegar leik lauk höfðu Garðbæingarnir skorað fimm mörk en Vestramenn aðeins eitt.

Samúel Samúelsson, formaður knattspyrnudeildar sagði í samtali við Bæjarins besta að það þýddi ekkert að draga fjöður yfir það að Vestri hafi átt slæman dag að þessu sinni og Garðbæingarnir hefðu verðskuldað sigurinn. Samúel sagði  að deildin væri jöfn og ekkert lið gæti gengið að neinum sigrum vísum.

Staðan er sú að Vestri er í 4. sæti með 15 stig eftir 9 umferðir. Er liðið 6 stigum frá toppnum en þó aðeins tveimur stigur frá 2. sætinu sem gefur keppnisrétt í 1. deild næsta sumar.

Leiknar eru 22 umferðir.

DEILA