Ef tillögur framsögumanns atvinnuveganefndar Alþingis; Kolbeins Óttarsonar Proppe, um lagaskil milli nýrra og núverandi laga um fiskeldi ná fram að ganga munu fjórar umsóknir Arnarlax um laxeldi í sjó falla úr gildi. Þetta staðfestir Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax í samtali við Bæjarins besta. Tillögurnar eru ekki fullræddar innan nefndarinnar og geta mögulega tekið breytingum.
Umsókn um 4.500 tonna eldi í Arnarfirði er ein þeirra. Ætlunin er að þær umsóknir þar sem ekki er komin fram frummatsskýrsla muni falla niður og sækja verði um leyfi eftir nýjum lögum. Kjartan bendir á að þessi umsókn sé í Arnarfirði og á svæði sem búið er bæði að burðarþolsmeta og að gera áhættumat fyrir erfðablöndun. Seiði voru sett út í Tálknafirði í júlí 2010 og fyrsta slátrunin var ári síðar, 2011.
Aðrar umsóknir Arnarlax eru um 10 þúsund tonna eldi á þremur svæðum, í Jökulfjörðum, í Ísafjarðardjúpi og í Eyjafirði.
Fjárfesting Arnarlax í sjókvíaeldinu er að sögn Kjartans Ólafssonar komin í 15 milljarða króna.
Arctic Fish: langt umsóknarferli
Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri hjá Arctic Fish segir að fyrirtækið sé með fjórar umsóknir í ferli og hann vonast til að þær séu komnar það langt að þeim verði lokið samkvæmt gildandi lögum. Sigurður benti á að ferli leyfisumsókna taki langan tíma og í ferlinu hafi oft ýmislegt breyst sem hefur tafið s.s. bið eftir burðaþolsmati, nýtt áhættumat og svo hafi úrskurður ÚUA vegna Patreks- og Tálknafjarðar haft í raun áhrif á öll umhverfismatsferli hjá fyrirtækinu.
Umsóknirnar voru lagðar til á árunum 2011 og 2012 og eru enn óafgreiddar, þótt þær séu komnar mismunandi langt. Þannig hafi umsókn um eldi í Önundarfirði verið lögð fram 2011 en burðarþolsmat hafi ekki komið fyrr en í júlí 2018 á meðan hafi umsóknin eiginlega verið strand því ekki se hægt að hefja umhverfismatsferli fyrr en það liggur fyrir.