Í tilefni af 17. júní: Eru íslenskir ráðamenn fábjánar, á erlendu máli imbecile?

Þessari fávíslegu spurningu verður ekki svarað hér. Aftur á móti er margt sem bendir sterklega á að það er ekki allt með felldu hjá þessari hamingjusömu þjóð og ráðamönnum hennar, sem taldi 358,780 manns 1. apríl s. l. Við viljum oftast bæði sleppa og halda, ganga til vinstri og hægri í senn. Það má yfirleitt ekki segja nei eða hingað og ekki lengra. Ráðamenn eru alltaf að glíma við afleiðingar frá morgni til kvölds. Um orsakir vandamála er sjaldan spurt.

Örfá dæmi úr fréttum síðustu daga:

Alþingi, löggjafarstofnun þjóðarinnar, getur ekki stjórnað sér sjálft.

Á Íslandi búa 80.383 börn. Fleiri en 13.000 af þeim verða fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn, sum hver daglega.

Heildaráhætta vegna skipulagðrar glæpastarfssemi á Íslandi er gífurleg, að mati greiningardeildar ríkislögreglustjóra og kemur næst náttúruvá. Staðan fer síversnandi og telur greiningardeildin ljóst að hún hafi mikil áhrif á líf og heilsu fólks á landinu og sé mjög skaðleg fyrir samfélagið og alla innviði þess.

Botnlaus gróðahyggja á leigumarkaði, segir formaður Leigjendasamtakanna.

Á síðasta eldhúsdegi í beinni útsendingu úr þingsal, voru  þingmenn meira og minna stanslaust í símanum, eða ipaddinum.

Oft er starfsnám ekki einu sinni rætt við krakka sem eru að útskrifast úr grunnskóla. Þeim sem vita ekkert hvað þau langar að gera er beint í bóklegt nám. Sum þeirra hafa engan áhuga á því.

Eftir 67 ára aldur er fólki hegnt fyrir að vinna og svo flytjum við inn tugþúsundir erlends verkafólks, sem sumt er ekkert annað en þrælar okkar.

Sumar einstakar náttúruperlur eru misnotaðar miskunnarlaust af fégráðugum „ferðaþjónustuaðilum“. Nýjasta dæmið er hvað svakalegast: Hundruð milljóna króna renna beint í vasa „aðilanna,“ en ekki fimmeyringur í aðstöðu, umsjón eða viðhald. Yfirvöldin úti á þekju að vanda!

Auðunn vestfirski

DEILA