Nýlega lét Orkubú Vestfjarða bora fyrir sig þrjár borholur í Syðridal í Bolungavík. Elías Jónatansson, Orkubússtjóri var inntur eftir því hvers vegna og hver árangurinn varð.
„Markmiðið með boruninni núna var að reyna að afmarka hitauppstreymið sem þekkt var af fyrri borunum og þekktum yfirborðshita við Gil í Syðridal.
Í Bolungarvík er þekktur jarðhiti á yfirborði á einum stað, 27°C í landi Gils innarlega í Syðridal. Fyrstu þrjár borholurnar þar voru boraðar á árunum 1964 til 1974. Sú fyrsta var 56 m djúp, sú næsta 163 m, en úr henni fengust 6 l/sek af 23°C heitu vatni. Þriðja holan var 864 m djúp í landi Hanhóls. Holan bætti litlu við, en þar fannst þó vatnsæð á 250 m dýpi sem var 28°C heit.
Núna voru boraðar þrjár 100 m djúpar holur. Ein var nálægt Reiðhjallavirkjun og önnur við Miðdal, en þær reyndust kaldar. Þá var boruð hola á Hanhólseyrum u.þ.b. 300 metrum nær Syðridalsvatni en gömlu holurnareru. Botnhiti á 100 metrum mældist rúmar 11°C, en mat jarðfræðinga ÍSOR og ályktanir út frá þessum gögnum liggur ekki fyrir. Þeir telja þó að ef ákveðið verður að fara í frekari leit þá sé rétt að bora nokkrar prufuholur við rætur Heiðnafjallsins, en vísbendingar úr þeim borunum gætu ýtt á frekari boranir niður á meira dýpi. Þar sem landið þar er mjög blautt þá þarf borinn væntanlega að vera á beltum til að geta athafnað sig á svæðinu.“
Elías sagði að lokum að ákvörðun um frekari boranir verður ekki tekin fyrr en mat jarðfræðinganna liggur fyrir.