Móðir mín Margrét Guðfinnsdóttir

Guðmundur Baldur Sigurgeirsson. Mynd:Kristinn H. Gunnarsson.

Ágætu samkomugestir,

hvað getur maður sagt um mömmu sína, ætli við séum ekki öll sammála um að við höfum átt heimsins bestu mömmu.

 

Skötufjörður og Folafótur

Mamma mín Margrét Guðfinnsdóttir fæddist 29.mars 1909, eða fyrir 110 árum í Litlabæ í Skötufirði. Foreldrar hennar voru hjónin Halldóra Jóhannsdóttir, ættuð úr Skagafirði og Guðfinnur Einarsson frá Hvítanesi og var hún tólfta barn þeirra af fimmtán. Barn að aldri flutti hún með foreldrum sínum að Tjaldtanga í Folafæti, en þar var gott útræði og var þá nokkur byggð í Folafæti. Frá 9 ára aldri dvaldist hún hjá Sigfúsi bróður sínum og Maríu konu hans sem þá bjuggu í Kolakoti í Fætinum og gætti barna þeirra.  Vann hún sér þá æfilangrar vináttu þeirra Guðfinns og Kristjáns, sona þeirra hjóna. Ellefu ára gömul varð hún fyrir þeirri reynslu að horfa föður sinn drukkna ásamt öðrum manni þegar bát þeirra hvolfdi á Seyðisfirði. Þrettán ára fluttist hún með móður sinni til Hnífdals og gekk þar í skóla ,að ég held part úr tveimur vetrum, en það var öll hennar skólaganga og fermdist hún í Ísafjarðarkirkju á hvítasunnudag 1923 fjórtán ára gömul. Þá gáfu prestar vitnisburð í lestri, skrift, reikningi, kristnidómi og  hegðun og fékk mamma ágætt í öllu, en það var séra Sigurgeir Sigurðsson, síðar biskup sem fermdi hana.

Litlibær í Skötufirði.

Þegar ég var að hugleiða hvað ég ætti að segja hér komst ég fljótt að því að það var erfitt að tala um mömmu án þess að minnst væri á pabba og láta eins og hann hafi ekki verið þarna, svo samofið sem líf þeirra var í næstum sjötíu ára sambúð. En pabbi hét Sigurgeir Sigurðsson fæddur 22.júlí 1902 á Markeyri í Skötufirði, en alinn upp frá fjögura ára aldri í Folafæti (Heimabænun eins og hann var kallaður, en það var bújörðin, önnur heimili í Fætinum voru svokölluð grasbýli).

Sextán ára gömul réði mamma sig í vist hjá Evlalíu ömmu í Heimabæ (Folafæti) og þar hófust kynni þeirra pabba og þar giftu þau sig 5.september 1926. Sagan segir að Hannes bróðir pabba hafi bakað pönnukökur fyrir veisluna meðan brúðguminn sótt prestinn yfir að Hvítanesi. Þar hófu þau búskap í sambýli við Evlalíu ömmu, það var þröngt búið í þá daga.

Margrét Guðfinnsdóttir og Sigurgeir Sigurðsson.

 

til Bolungavíkur

 

Árið 1934 fluttu þau til Bolungavíkur og höfðu þá eignast fjögur börn af tíu, en þau ólu líka upp Ásgeir systurson pabba og má segja að mamma hafi fengið hann með pabba. Hér í Bolungavík áttu þau fyrst heima í Dúfubúð, sem stóð nálægt því sem hús slysavarnardeildarinnar er nú.  Seinna áttu þau heima við Miðstræti 4 sem gamlir Bolvíkingar kölluðu Kitta Ellahús, mín kynslóð Kjartanshús og þeir sem enn yngri eru tengja gjarnan við Dóra í Skálavík. En lengi áttu þau heima hinumegin við Miðstrætið númer 3, í húsi sem Pálmi Gestsson á núna, á efri árum áttu þau svo heima að Völusteinsstæti 8.

 

Æfistarf mömmu fór að miklu leyti fram innan veggja heimilisins við uppeldi barna og hefðbundið heimilishald, en því fór fjarri að hún hafi verið bara húsmóðir, þau áttu lengst af kindur, kýr og hænsni og kom verulegur hluti bústarfa í mömmu hlut.

 

bústörf

Oft þurfti hún að gefa fénu og kúnum þegar pabbi var á sjó, og það var hennar verk að mjólka kýrnar kvölds og morgna og ekki nóg með það því áður en mjólkursamsala kom var mjólkinni dreift til viðskiptavina í bænum og þurfti að fylla á flöskur og í brúsa. Sumir áttu glerflöskur sem korktappi hafði verið bundinn við, en aðrir brúsa. Eitt af fyrstu skyldustörfum okkar krakkanna var að fara með mjólkina í húsin. Þá var ekki venja að læsa húsum í bænum, maður fór bara inn í ganginn skilaði fullri flösku og tók þá tómu sem þar var. En til gamans geta þess að á jólum kom oft fyrir að tóma flaskan var ekki á sínum stað. Þá var bara að banka og gera vart við sig og kom þá húsmóðirin til dyra með flöskuna og epli eða appelsínu til að gleðja mjólkurpóstinn en slíkt góðgæti var þá ekki daglega á borðum fólks eins og seinna varð.

 

ullarþvottur

Annað sem tilheyrði búskapnum var ullarþvottur, en tekið var af fénu um mánaðarmótin júní /Júlí . Ullin var þvegin við læk sem rann um Stebbalaut nálægt þar sem Kitti Friðgeir og Jónína Elísar áttu heima. Var ullin soðin í stórum potti á hlóðum og skoluð í læknum, síðan breidd út á tún til þerris.  Farartækið til flutnings til og frá þvottastað voru hjólbörur. Þvegin ull var síðan send til Akureyrar og kom til baka í formi lopa og ullarbands sem aftur nýttist í ullarfatnað. Seinna var ullin send óþvegin og lagðist  því ullarþvottur heimavið af.

 

sláturtíðin

Þá var það sláturtíðin, en það var í senn annasamur og skemmtilegur tími, ég held að þegar mest var hafi mamma tekið um 30 slátur. Allt var í föstum skorðum ár eftir ár og nokkur spenna eftir að vita hvernig til tækist með sláturgerðina, sem auðvitað lánaðist alltaf vel hjá mömmu. Sláturgerðinni lauk  svo með kæfugerð, en kjötið af elstu ánum sem skilað höfðu góðum arði var soðið i kæfu. En sá skemmtilegi siður var heima að kalla í Hannes frænda til að smakka því ekki þótti kæfan boðleg nema hann samþykkti  bragðið.

 

Mamma var eðli sínu frekar hæglát og blíð kona, sem hvorki barði bumbur né blés í lúðra, en hún var engu að síður glaðlynd og félagslynd á sinn hátt og hún var söngelsk kunni mikið af vísum og sönglögum og tók þátt í félagsstörfum og skemmtanalífi eins og þá gerðist, hún var ein af þeim konum sem komu þorrablótinu á laggirnar, sem enn lifir góðu lífi og áður en yfir lauk skilaði

hún drjúgu dagsverki, reyndar ótrúlegt hve miklu hún kom í verk, það sér maður best eftir á.

maður reifst aldrei við mömmu

Hún kunni vel að umgangast  okkur krakkana og láta okkur hlýða án hávaða og maður reifst aldrei við mömmu, þó óneitanlega hafi maður oft verið óþekkur.  Hún var áhugasöm um skólanámið og  hvatti okkur krakkana áfram, hún las alla tíð tölvert meðan hún gat, en undir lokin var sjónin farin að láta sig  og hún hvatti okkur til lestrar.

 

Fimmtán ára gamall var ég í skóla á Núpi og sat í Landsprófsdeild. Sá háttur var þar á að í lok apríl tók Gagnfræðideildin lokapróf og fór heim, á sama tíma tókum við í Landsprófinu eins konar undirbúningspróf, en  gátum, ef svo bar undir, fengið Gagnfræðapróf útá það og farið heim, en Landprófinu lauk í lok maí. Eitthvað hefur heimþráin sagt til sín, því ég hringdi til mömmu, ég man ekki vel hvað hún sagði, en það var enginn hávaði og engar skammir en eitthvað sagði hún á þá leið að þau hefðu ætlast til að ég kláraði prófið. Ég man ekkert hvað ég sagði, en hún reiknaði með mér heim næsta dag en í staðinn fékk hún bréf frá mér og ég kláraði prófið, þannig tókst henni með hógværðinni og réttu orðavali að snúa villu ráfandi unglingnum á rétta braut.

 

opin fyrir framförum

 

Það var mikil vinna að halda stórt heimili, elda mat, þvo þvotta, þrífa húsið, sauma og gera við fatnað og ala upp börn, auk þess að sinna búskap í hjáverkum. Ég man vel þegar þvottavélin kom, gæti hafa verið eitthvað fyrir 1950, vissulega ekki sjálfvirk eins og nú er, en nýtískuleg á þeirra tíma mælikvarða sem sennilega var það heimilistæki sem mest munaði um hvað vinnusparnað snerti, svo komu önnur heimilistæki eitt af öðru.

 

Mamma var opin fyrir framförum og breytingum, tók því til dæmis vel þegar dæturnar fitjuðu uppá nýjungum í matargerð og öðru sem sneri að daglegum heimilisverkum, þegar þær uxu úr grasi.

 

góður vinur

Hún var þeirrar gerðar, að það var auðvelt að leita til hennar þegar á bjátaði og margir sem minna máttu sín áttu í henni góðan vin. Bjagga frænka (Bjagga í sjoppunni) lét gjarnan sækja hana á undan ljósmóður þegar kom að fæðingu. Ósætti var eitur í hennar beinum, og kannske leið henni aldrei verr en þegar slíkt kom upp á heimilinu sem óneitanlega verður á stóru heimili og lagði hún mikið á sig til að sættir næðust þegar slíkt kom upp.

 

Eins og áður hefur komið fram eignaðist mamma tíu börn á nítján árum, níu komust til fullorðins ára svo og fóstursonurinn.

Tíu dögum eftir að yngsta barnið fæddist komu fyrstu barnabörnin, tvíburar, og síðan hvert af öðru og fengu þau að njóta samveru við ömmuna og hún lét sig ekki muna um að hafa þau á heimilinu tímabundið, og jafnvel vetrarlangt. Alltaf var nóg pláss og ekki má gleyma Vatnsnesinu um sláttinn en mörg voru þau þar og fengu tilsögn í heyskaparvinnunni, og vöndust  vinnusemi. Guð má vita hvað afkomendurnir eru nú orðnir margir.

 

Eitt sinn hafði ungur maður ráðið sig í skiprúm  hjá pabba, hann átti þess ekki kost að búa í foreldahúsum, þá var hann bara tekinn inn á heimilið og var eftir það einn af okkur alveg þar til hann dó ungur maður, það munaði ekki mikið um einn. Í viðbót við stóra fjölskyldu voru oft kostgangarar og leigendur, bæði var um að ræða menn sem reru með pabba og aðra eftir atvikum.

 

komu færandi hendi

Mamma var líkamlega heilsuhraust  og andlega var hún mjög sterk. Hátt á áttræðisaldri gekkst hún undir móðurlífsaðgerð, kom þá í ljós mjög útbreitt krabbamein í kviðarholinu. Fyrstu viðbrögð lækna voru að hún ætti ekki langt eftir, en Þórarinn krabbameinslæknir var á annarri skoðun og við tóku erfiðar meðferðir,  engu að síður lifði hún nokkuð góðu lífi í um það bil sjö ár eftir þetta og gat ásamt pabba búið i húsinu sínu við Völusteinsstræti með dyggri aðstoð dætra og sonar sem þá áttu heima hér í bænum.

 

Í september 1994 fluttu þau í íbúð aldraða við Aðalstræti. Mamma átti ekki marga lífdaga þar, svaf einungis örfáar nætur áður en hún fór til lækninga í Reykjavík, en þar lést hún 3.október 85 ára gömul, nokkuð óvænt, en kannske kemur dauðinn alltaf óvænt. Við stutta kveðjuathöfn í Reykjavík, að viðstöddum nánum ættingjum, sagði séra Þorbergur Kristjánsson að við komu þeirra til Bolungavíkur hafi þau ekki verið hlaðin veraldlegum auði, en þau komu færandi hendi. Ég trúi að margir af samtíðafólki þeirra hér hafi getað tekið undir þau orð.

 

Jarðarförin fór fram frá Hólskirkju á fögrum haustdegi  8. október. Það var táknrænt að á meðan hún var borin síðasta spölinn að gröfinni gekk sólin undir Ernirinn og skein ekki meira þann daginn á bæinn hennar Bolungavík, sem hún unni svo undurheitt.

Þetta var það sem ég ætlaði að segja. Takk fyrir að hlusta.

 

Guðmundur Baldur Sigurgeirsson

 

Erindi sem Guðmundur flutti um móður sína á Þuríðardeginum í Bolungavík 31.5. 2019 í Félagsheimilinu.

DEILA