Vestfirska vísnahornið 6.6. 2019

Í vestfirska vísnahorninu 30. apríl í svokölluðum Hrísabrag reyndi prófarkalesari að láta ríma saman halnum og Flókadalinn sem auðvitað gengur ekki. Rétt er vísan svona:

Stefndu að Hrísum Strandamenn.

Stuð á mörgum halnum.

Bærinn var og er svo enn

innst í Flókadalnum.

 

Vorveðráttan hefur svosannarlega ekki verið til að hrópa húrra fyrir. Hart er að þurfa vera kappklæddur þegar farið er úr húsaskjóli, fuglasöngurinn lágstemmdur og hálffreðinn og áfram heimskautaloft yfir okkur samkvæmt verðurspá. Hér er vísa frá því er betur blés.

Enn er sumarsólin hér

séð vart aðra slíka.

Bændar eru að bræða úr sér

og bústofn þeirra líka.

Talandi um bústofn og búskap þá hefur okkur sauðfjárbændum bæst góður liðsauki sem er Reimar Vilmundarson, sem ætla nú að sögn að hafa báðar Bolungavíkurnar undir.

Menn segja að Reimar einhamur sé

og alls ekki ekki setji sér skorður.

Því ætli hann brattur að búa með fé

í Bolungavíkurinni norður.

 

Sigmundur Sigurðsson, sem áður bjó í tólf ár á Óspakseyri en er nú kóngsins lausamaður í Lyngási í Kollafirði er prýðilega hagmæltur og léði mér nokkrar tækifærisvísur. Einhvern tíma kom hann til frænda síns Franklíns Þórðarsonar í Litla Fjarðarhorni er hann var við skítmokstur, sem er ekki sú iðja sem bændum líkar best að sinna.

 

Út á túni er að spóla,

ekki er hann í skapi þjáll.

Ekur skarni út á hóla

eins og gerði forðum Njáll.

 

Simmi hefur lengi verið á sauðburðarnæturvakt á Smáhömrum og á þeim vettvangi verður aldrei alveg sneytt hjá lambavanhöldum.

Kem ég inn í kaffi þreyttur.

Karlinn verður orku að hafa.

Því alla morgna er ég sveittur

on´í fjöru lömb að grafa.

 

Einhvern tímann að vetri hringdi Simmi í mig án árangurs en sá svo í hendi sér hvað olli.

 

Mikið er ég minnugur.

Mjög vill hungur sefa

sauðamaður sinnugur

sem er úti að gefa.

 

Það vakti blendnar tilfinningar meðal bænda þegar stéttarformaðurinn var allt í einu hlaupinn frá stýrinu eða eins og Simmi segir:

 

Blessuð bændamenningin

býr við ásýnd kranka.

Flúinn er nú foringinn.

Fór í KB banka.

 

En svo fannst Simma aftur rofa til.

 

Bjart er nú í bændastétt

bara rétt si svona

Það er engin furðufrétt

þó foringinn sé kona.

 

Ekki er hægt að láta hjá líða að geta aðeins um orkupakkann og málþóf honum tengd.

 

Orkupakkinn er ansi sver.

Engan kærleik til hans ég ber.

Brátt verð ég kominn með svoddan sinn

sem að aðhyllist Miðflokkinn.

 

Í öndvegi þá ég Sigmund set.

Skagfirðinginn ég kjassað get

en Bergþórs sköndul þá met ég mest.

Mun því söðla minn hvíta hest.

 

Trump Bandaríkjaforseti er nú í Bretlandsheimsókn og hagar sér af því tilefni eins og artir hans standa til.

Trump er nú hjá Betu að bjástra.

Bræða á sárin heftiplástra.

Auðvaldsmesti ættarlaukur.

Ómenni og byssuhaukur.

 

Mörg þekkjum við eflaust kvæðið Skúlaskeið eftir Grím Thomsen þegar sakamaður á Þingvöllum bjargaði lífi sínu með því að þeysa á Skjóna sínum vestur til Borgarfjarðar. Þessi vísa sem ég nefni Sigmundarskeið er á líkum nótum.

 

Yfir Þingsins auma svið

eins og hugur beri,

þrusuvíxlað þrælalið

þeysir á grárri meri.

 

Og nú er nóg ort. Með ósk um hlýtt og huggulegt sumar okkur Vestfirðingum til handa.

Indriði Aðalsteinsson,

Skjaldfönn.

 

 

DEILA