Kerecis fékk Vaxtarsprotann

Mynd af Dóru Hlín og fjölskyldu við nýtt heimili þeirra í nágrenni skrifstofu Kerecis á Washington D.C. svæðinu

Kerecis hlaut í síðustu viku  viðurkenningu Vaxtarsprotans fyrir að vera eitt af þeim fyrirtækjum sem óx hraðast á Íslandi árið 2018. Er þetta í þriðja skiptið sem fyrirtækið hlýtur viðurkenningu Vaxtarsprotans. Árið 2016 var Kerecis það fyrirtæki sem óx hraðast á Íslandi, en 2017 og 2018 það sem óx næst-hraðast. Hjá fyrirtækinu starfa nú um 80 manns, þar af 55 í Bandaríkjunum en starf þeirra er að selja vörur fyrirtækisins sem framleiddar eru hér á Ísafirði. 

Til að mæta þessum mikla söluvexti er talverð þróun í starfsmannamálum fyrirtækisins. Dóra Hlín Gísladóttir sem verið hefur potturinn og pannan í rekstri Kerecis á Ísafirði fluttist til Bandaríkjanna í vikunni með fjölskyldu sinni til að styðja við söluvöxt fyrirtækisins þar í landi og Jóhann Bæring Gunnarsson hefur gengið til liðs við fyrirtækið sem framleiðsluverkfræðingur. Gert er ráð fyrir talsverðum vexti í mannahaldi á Ísafirði í ár og vinnur fyrirtækið nú m.a. að því að ráða fjóra nýja starfsmenn í framleiðsludeild fyrirtækisins. 

DEILA