Vilja bætt hjólastólaaðgengi í Alþýðuhúsið á Ísafirði

Hópur fyrrverandi nemenda við Menntaskólann á Ísafirði hafa vakið athygli á slæmu aðgengi fyrir hjólastólafólk að Alþýðuhúsinu. Hópurinn fær í gær í bíó ásamt einum úr hópnum, sem er í hjólastól og eins og myndin ber með sér er það ekki auðhlaupið að komast inn í húsið.

Hópurinn nefnir sig gemlingarnir og er hópur vina sem kynntist í Menntaskólanum á Ísafirði. Tveir úr hópnum greindust með krabbamein haustið 2017 , annar þeirra féll frá fyrir skömmu en hinn, Atli Örn Snorrason,  hefur verið bundinn í hjólastól síðustu mánuði.

Snævar Sölvi, einn úr hópnum segir að þeir séu mjög samrýndir og „meðal annars höfum við alla tíð farið mikið í bíó saman. Hins vegar hefur það verið hægara sagt en gert undanfarið vegna aðgengismála við Alþýðuhúsið.“
Stutt lýsing þeirra á bíóferðinni gær er svohljóðandi:
„Þegar við mættum fyrir framan tröppurnar sáum við að það myndi aldrei ganga að reyna að draga Atla upp í stólnum, heldur þyrftum við hreinlega að halda á honum upp tröppurnar í stólnum. Við vorum þrír með honum og þrátt fyrir að vera allir hraustir á besta aldri varð okkur ljóst að við þyrftum fleiri hendur. Og sem betur fer var Dúi í miðasölunni, sem er stór og hraustur maður, og stökk hann út og kom okkur til hjálpar. Við vorum því fjórir að bera vin okkar upp brattann, og eftir að upp tröppurnar var komið tóku við tveir háir þröskuldar. Svo þegar myndin var búin þurftum við að endurtaka leikinn og voru það eiginlega meiri átök að halda á honum niður tröppurnar, litlu mátti muna í síðustu þrepunum að við mistum jafnvægið og dyttum, sem hefði getað farið illa fyrir okkar mann. Veik manneskja er enginn sementspoki sem hægt er að henda aftur upp á bretti. Manni finnst skrítið að bygging sem kölluð er alþýðuhúsið sé ekki aðgengileg fyrir alla. En sem betur fer er gott fólk eins og Gróa og Dúi að sjá um rekstur kvikmyndasýninganna, þau vildu allt fyrir okkur gera og eru sammála okkur um að hjólastólaaðgengi verði að koma á fót.“
Vilji til úrbóta en fjármagn skortir
Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga segir að full þörf sé á úrbótum. Formaður Sjálfsbjargar á Ísafirði, Hafsteinn Vilhjálmsson,  hafi snúið sér til félagsins fyrr á þessu ári vegna þessa og málið sé til skoðunar hjá stjórn Verkalýðsfélagsins. Staðreyndin sé sú að verulegur kostnaður sé við nauðsynlegar lagfæringar og rekstrargrundvöllur Alþýðuhússins sé afar tæpur og beri ekki kostnaðinn.

„Sem dæmi má nefna að til stóð að loka bíóinu árið 2011 vegna gríðalegs kostnaðar sem við stóðum frammi fyrir vegna nauðsynlegrar  endurnýjunar kvikmyndabúnaðar yfir í stafrænan búnað þannig að hægt væri að sýna bíó í húsinu. Á þeim tíma tókst að ná samning við Ísafjarðarbæ um afslátt af fasteignagjöldum til að kljúfa þann pakka að hluta. Félagið þurfti samt sem áður að leggja út fyrir kaupum tækjanna. Samningurinn við Ísafjarðarbæ rennur út vorið 2022 og þá er óljóst með áframhaldandi rekstur á bíóinu, enda ekki hlutverk verkalýðsfélags að reka kvikmyndhús.“

Finnbogi segir að án afsláttar bæjarins af fasteignagjöldunum verði varla bíósýningar. Hann lætur í ljósi von um að það fáist stuðningur frá samfélaginu til þess að kosta sannarlega nauðsynlegar úrbætur.

DEILA