Í dag lýkur þingi Evrópusamtaka verkalýðsfélaga (ETUC) í Vínarborg, en fundinn hafa setið 4 fulltrúar frá ASÍ. Þingið er haldið á sama tíma og kosningarnar til Evrópusambandsþingsins hefjast en tvö lönd riðu á vaðið í gær, Holland og Bretland, en flest lönd kjósa á sunnudag. Þar sem þingið er haldið í Austurríki var einnig töluvert fjallað um dramatískt fall ríkisstjórnar landsins einungis nokkrum dögum fyrir þingsetninguna, en upptökur af varakanslara landsins láku til fjölmiðla. Í upptökunum sést hvar hann er að semja við rússneska fjárfesta um að leggja fé í fjölmiðla landsins sem lið í að taka yfir fjölmiðlun. Fyrir þennan greiða áttu Rússarnir að fá aðgengi að vatnsauðlindum landsins. Það er vonandi að þeir sem ábyrgir eru fyrir að leka þessum mikilvægu upplýsingum verði ekki refsað fyrir það, enda í almannahag að fá þessar upplýsingar.
Fyrir utan afgreiðslu ályktunar þar sem tæpt er á öllu sem viðkemur vinnandi fólki í Evrópu voru nokkur atriði áberandi á þinginu; jafnréttismál, sanngjörn dreifing auðæfa, áhyggjur af uppgangi andlýðræðislegra afla og umhverfismál. Í öllum þessum málaflokkum skiptir miklu máli að verkalýðshreyfingin beiti sér.
Ég talaði á svipuðum nótum þegar ég ávarpaði þingið á þriðjudag og lagði mikla áherslu á að samfélagslegt eignarhald á auðlindum og sterkt velferðarkerfi sé lykilatriði í framþróun lýðræðis og viðnámi gegn peningaöflunum.
Evrópa og heimurinn allur er í miklum vanda eins og nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz benti á í sinni ræðu. Nýfrjálshyggjutilraun síðustu 40 ára hefur mistekist hrapallega þar sem auðurinn sem við sköpum saman hefur að stærstum hluta ratað til peningaaflanna sjálfra en ekki almennings. Þetta er ástæða þess að fólk missir trú á stjórnmálum og lýðræðinu. Þetta er ástæðan fyrir því að sífellt fleiri halla sér að öflum sem etja minnihlutahópum saman og grafa undan lýðræði. Eina lausnin er að styrkja megin stoðir samfélagsins, afkomu vinnandi fólks og samræma skatta á peningaflutninga. Þar er verkalýðshreyfingin einnig í lykilhlutverki.
Njótið helgarinnar,
Drífa Snædal
forseti ASÍ