Halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins hf segir að loksins sé verið að vinna umhverfismatsskýrslu fyrir vinnslu kalkþörunganna í Ísafjarðardjúpi með verksmiðju í Súðavík.
Miklar tafir hafa orðið á málinu og segir Halldór töfina liggja í því að umsagnir ýmissa opinberra stofnana um frummatsskýrsluna hafi dregist úr hófi. Miðað við lögbundna fresti hefðu umsagnirnar átt að liggja fyrir í október 2017.
Nú liggja loksins fyrir umsagnirnar og þá getur Kalkþörungafélagið látið vinna sjálfa matsskýrsluna sem verður svo sent til Skipulagsstofnunar. Að fengnu alit stofnunarinnar fer málið til orkustofnunar sem veitir leyfi til framkvæmda. Halldór Halldórsson á von á því að skýrslan verði fljótlega tilbúin og sagðist vonast til þess að geta hafið framkvæmdir við nýja verksmiðju í Súðavík á þessu ári og að framleisðlan geti hafist 2022.
Áætlað er að 38 störf verði við nýju verksmiðjuna og 14 óbein störf að auki.