Hér er samantekt af því helsta sem gerðist í vikum 19 og 20 við vinnu Dýrafjarðarganga.
Í göngunum var haldið áfram með lagningu frárennslis- dren- og ídráttarlagna í hægri vegöxl og er nú búið að leggja um 800 metra. Vinna við lokastyrkingar á kaflanum frá gegnumbroti og að Arnarfirði er u.þ.b. hálfnuð.
Uppsteypu á sökklum í vegskálanum Dýrafjarðarmegin var haldið áfram ásamt uppsetningu á mótunum fyrir skálann sjálfan og samsetningu á fyrstu járnagrindinni.
Haldið var áfram með vegagerð í Dýrafirði m.a. skeringar ofan við veg og fór efnið í fláafleyga neðan við veg ásamt því að ræsi voru lögð í veginn. Haldið var áfram með mölun á efni úr Nautahjalla sem verður notað í efri lög vegarins.
Á meðfylgjandi myndum má sjá þegar unnið er að vegavinnu í Dýrafirði, uppsetningu á þéttidúk við munna í Dýrafirði, neðri hluta steypumóta fyrir vegskálann.
Fyrir hönd framkvæmdaeftirlits Dýrafjarðarganga
Baldvin Jónbjarnarson