laxeldi: Jákvætt álit Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun er jákvæð í áliti sínu á fyrirhuguðu auknu laxeldi Arctic Fish og Arnarlax í sjó í Tálknafirði og Patreksfirði úr 3.000 tonnum í 17.500 tonn.

Forsaga málsins nær til ákvörðunar Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál (ÚUM) sem felldi úr gildi starfs- og rekstrarleyfi Arctic Fish og Arnarlax með tveimur úrskurðum 27. sept. 2018 og og 4. okt. 2018 þar sem ekki hefði verið framkvæmd valkostagreining í umhverfismatinu fyrir framleiðsluaukningunni á sínum tíma. Brást Alþingi við með því að setja lög um veitingu leyfa til bráðabirgða og gefa fyrirtækinu kost á að bæta úr umhverfismatinu. Hefur síðan verið unnið að viðbót við umhverfismatið þar sem framkvæmd er umrædd valkostagreining.

Var í þeirri greiningu tekið fyrir landeldi, eldi með ófrjóum lax, aðrar eldisaðferðir – regnbogasilungur og lokaðar eldiskvíar. Er það niðurstaða fyrirtækisins í viðbótarskýrslunni að umræddir aðrir kostir séu ekki fýsilegir hver þeirra af  tilgreinum ástæðum. Ennig var farið fram á breytingu á staðsetningu kvíanna í Tálknafirði og Patreksfirði í ljósi þeirrar reynsla sem komin var frá því umhverfismatið var gert fyrir þremur árum.

Það er álit Skipulagsstofnunar að ástæður fyrirtækisins fyrir því að útiloka aðra valkosti séu málefnalegar og gerir stofnunin ekki athugasemdir við þær.

Ýmsar umsagnir bárust um viðbótarfrummatsskýrsluna frá sveitarfélögum, stofnunum og samtökum sem lagst hafa gegn laxeldi í sjó svo sem landssambandi veiðifélagi, Náttúruverndarsamtökum Íslands og nokkrum veiðiréttarhöfum innan og utan Vestfjarða.

Náttúruverndarsamtök Vestfjarða, sem nýlega voru endurvakin, eru hluti af Náttúruverndarsamtökum Íslands, en þau samtök hafa staðið að nokkrum kærum og málshöfðunum fyrir dómstólum í því skyni að koma fiskeldinu í sjó á Vestfjörðum á kné.

Óttar Yngvason fór með málið fyrir hönd samtakanna og gerði kröfu um að framkvæmdin færi á byrjunarreit  með nýju umhverfismatsferli frá grunni. Því var Skipulagsstofnun ekki sammála og telur að viðbótarfrummatsskýrslan bæti úr þeim annmörkum sem ÚUA taldi vera á umhverfismatinu.

Málið fer núna að fengnu áliti Skipulagsstofnunar til Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar sem veita starfsleyfi og rekstrarleyfi. Umhverfisstofnun mun auglýsa umhverfismatið og gefa kost á athugasemdum. Vænta má niðurstöðu um leyfisveitingarnar eftir  um það bil 2 – 3 mánuði.

DEILA