Háskólasetrið: tvær meistaravarnir

Auk þeirra tveggja meistarprófsvarna við Háskólasetur Vestfjarða sem þegar hefur verið sagt frá á bb.is voru tvær aðrar  sem fram fóru í vikunni.

Sú fyrri fór fram á miðvikudaginn og fjallaði Erin Kathleen Wilson um endurheimt marhálms í Nova Scotia.  Ritgerðin ber titilinn Absence of recovery in an eelgrass (Zostera marina L.) bed in Nova Scotia, Canada: Results from a transplant study.

Marhálmur hefur verið á undanhaldi á austurströnd Kanada frá aldamótum vegna tilkomu bogkrabba þar um slóðir. Sumstaðar hafa marhálmsbreiður náð sér á strik aftur en við víkina Benoit Cove í Nova Scotia hefur endurheimt ekki tekist. Viðfangsefni ransóknar Erin er að komast að því hversvegna endurheimtin við þessa vík hefur ekki tekist. Í rannsókninni er einnig lagt mat á efnahagslegt gildi endurheimtar marhálm við austurströnd Kanada og kortleggja stefnu og stjórnun yfirvalda hvað varðar verndun marhálms. Nánari lýsingu má nálgast í útdrætti á ensku.

Leiðbeinandi verkefnisins var dr. David Garbary, prófessor við St. Francis Xavier háskóla í Kanada. Prófdómari var dr. Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum.

Sú síðari fór fram í gær og bar heitið Loftslagsbreytingar og vatnsgæði í Vaðhafinu.

Ritgerðin ber titilinn Green Infrastructure and Water Quality in the Wadden Sea under Future Changes in Climate.

Sara Pino Cobacho beinir sjónum sínum að áhrifum loftslagsbreytinga á vatnsgæði í Vaðhafinu við strendur Hollands. Ítarlega lýsingu á verkefninu má nálgast í útdrætti á ensku.

Leiðbeinendur verkefnisins eru dr. Ghada El Serafy, sérfræðingur við Deltares vatnarannsóknarstofnunina í Hollandi og dr. Zoi Konstantinou, stefnumótunarráðgjafi við stjórnsvið sjávarútvegsmála hjá framkvæmdarstjórn ESB. Prófdómari er dr. Pamela Woods, fiskifræðingur við Hafrannsóknastofnun – Rannsókna- og ráðgjafastofnun hafs og vatna.

Lokið er meistaraprófvörnum við Háskólasetrið að sinni.

DEILA