Yngvi Páll Gunnlaugsson, yfirþjálfari Körfuknattleiksdeildar Vestra, hefur ákveðið að láta af störfum hjá deildinni og hafa hann og stjórn félagsins náð góðu samkomulagi þar um. Yngvi mun áfram gegna starfinu fram eftir sumri eða þar til nýr þjálfari kemur til starfa. Ástæður brotthvarfs Yngva frá félaginu eru breyttir fjölskylduhagir en hann stefnir suður á höfuðborgarsvæðið með fjölskyldu sína með haustinu.
Frá þessu er greint á heimasíðu Vestra í gær.
Yngvi hefur átt farsælan feril hjá Vestra en hann tók við starfi yfirþjálfara körfunnar fyrir sléttum þremur árum. Hann hefur stýrt meistaraflokki karla í 1. deild ásamt því að vera yfir öllu starfi yngri flokka deildarinnar og þjálfa einstaka aldurshópa, jafnt stúlkur sem drengi. Hann varð bikarmeistari 2017 með 9. flokk drengja og undir hans forystu hafa yngri lið körfunnar náð góðum árangri og sum keppt í efstu riðlum á Íslandsmótum. Einnig hefur fulltrúum Vestra í yngri landsliðum KKÍ fjölgað í hans tíð auk þess sem meistaraflokkur kvenna er mögulega í burðarliðnum hjá deildinni eftir langt hlé.
Það er sannarlega eftirsjá af Yngva Páli frá Ísafirði og úr starfi íþróttafélagsins Vestra. Stjórn Körfuknattleiksdeildar Vestra færir Yngva bestu þakkir fyrir gott og gefandi samstarf og óskar honum og fjölskyldu hans alls velfarnaðar á nýjum vettvangi.